-0.5 C
Selfoss

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands: „Og nú verðum við óstöðvandi“

„Það má kannski segja að undirbúningur að stofnun Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands hafi hafist fyrir rúmum 30 árum þegar ég fór að vinna að uppbyggingu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands,” segir Guðmundur Óli Gunnarsson, hljómsveitarstjóri. “Reynslan af því starfi er auðvitað ómetanleg og besta veganesti sem hægt að er hugsa sér.“

Leggur sitt í uppbyggingu menningar á Suðurlandi

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands er nú á sínu þriðja starfsári. Hljómsveitin er mikilvægur hluti af uppbyggingu menningarlífs á Suðurlandi.

„Formlega séð þá er miðað við að hljómsveitin hafi verið stofnuð 10. júní 2020 en það er dagurinn sem var ákveðið að láta á þetta reyna í alvörunni og við, aðstandendur hljómsveitarinnar, sjáum svo sannarlega ekki eftir því,” segir Guðmundur Óli.

Greta Guðnadóttir Konsertmeistari og 1.fiðla og María Weiss 2.fiðla í Flóaskóla.

Fyrir samfélag Sunnlendinga

Með eigin sinfóníuhljómsveit skapast ekki síður atvinnutækifæri fyrir tónlistarmenntað fólk í klassískri tónlist í landshlutanum. „Okkar markmið er að starfrækja klassíska hljómsveit atvinnutónlistarfólks, vera hljómsveit alls Suðurlands og starfa fyrir samfélagið og með samfélaginu,” segir Guðmundur Óli.

Skólatónleikar í Hveragerði haustið 2022.

Ávinningurinn mikill

“Ávinningurinn af starfi hljómsveitarinnar er bæði samfélagslegur og hagrænn ef svo má segja. Hún skapar störf fyrir atvinnutónlistarfólk og auðgar menningarlíf í landshlutanum og reyndar gæti ég haldið langa, mjög langa ræðu um hver ávinningurinn er því hann kemur fram á svo mörgum sviðum, en við geymum hana þar til síðar,” segir Guðmundur Óli og kímir.

Verkefnin frá upphafi er fjölmörg. “Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands voru haldnir haustið 2020. Þetta voru þrennir skólatónleikar fyrir börn úr sex skólum í Árnesþingi og ári síðar voru haldnir fimm tónleikar fyrir börn í Árborg, Flóahreppi, Ásahreppi, Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra og Vestmannaeyjum.

Guðmundur Kristmundsson Víóluleikari og Uelle Hahndorf Sellóleikari.

Hafa spilað fyrir börn í öllum sveitarfélögunum

Í vor náði hljómsveitin svo þeim gleðilega áfanga að vera búin að spila skólatónleika fyrir börn í öllum fimmtán sveitarfélögum Suðurlands. Auðvitað hefur  Kórónuveirufaraldurinn sett mark sitt á starf hljómsveitarinnar og við þurftum að fresta og fella niður nokkra tónleika en náðum að spila á Oddahátíð, í Listasafni Árnesinga og Vínartónleika bæði á Höfn og á Kirkjubæjarklaustri. Í haust hófst svo önnur skólatónleikaröð hljómsveitarinnar. „Og nú verðum við óstöðvandi” segir Guðmundur Óli brosandi.

Meðbyr og velvilji

Hann segir greinilegt að viðtökur sýni að Sunnlendingar taki því fagnandi að hafa slíka hljómsveit sem sinfóníuhljómsveitin er. “Ég held að það sé alveg óhætt að segja að velvilji og meðbyr hafi einkennt þær viðtökur sem hljómsveitin hefur fengið og fyrir það er ég mjög þakklátur. Menningarmálaráðuneytið styrkir verkefnið og bæði Uppbyggingarsjóður SASS og Tónlistarsjóður hafa reynst ómetanlegir bakhjarlar, auk nokkurra fyrirtækja á Suðurlandi og svo hafa viðtökur tónleikagesta verið frábærar.”

Sinfóníuhljómsveit suðurlands spilaði í Flóaskóla 27.09.2021

Jólatónleikarnir

Um jólatónleikana þann 10 desember í Selfosskirkju segir Guðmundur Óli þá verða af þeim myndugleika að sveitin sé að stækka og eflast. “Þeir verða bæði gleðilegir og hátíðlegir. Um 50 hljóðfæraleikarar víða að af Suðurlandi munu skipa hljómsveitina og auk þeirra koma fram Kirkjukór Selfosskirkju og Barna- og unglingakór Selfosskirkju að ógleymdum einsöngvurunum Hallveigu Rúnarsdóttur og Eyjólfi Eyjólfssyni. Þetta eru líklega um 130 flytjendur,” segir Guðmundur Óli. “Næstum eins margir og gestirnir sem rúmast í kirkjunni því við getum aðeins boðið 200 sæti.”

Skólatónleikar í Þorlákshöfn 2022.

Framtíð Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands

“Framtíðin er björt og metnaðarfull,” segir Guðmundur Óli og hlær. “Það er búið að skipuleggja tónleikadagskrá til ársins 2025 og næstu verkefni að loknum jólatónleikunum verða Vínartónleikar í Hvolnum á Hvolsvelli  með Diddú og Karlakór Rangæinga og svo páskatónleikar þar sem Kirkjukór Selfosskirkju, Kammerkór Norðurlands og Skagfirski Kammerkórinn munu koma fram með hljómsveitinni ásamt einsöngvurum. Þetta eru virkilega spennandi verkefni og ég vona svo sannarlega að þessi starfsemi nái að festa sig í sessi og að Sunnlendingar geti notið sinnar sinfóníuhljómsveitar um langa framtíð,” segir Guðmundur Óli að lokum.

Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri.

Frá skólalúðrasveit til Sibeliusarakademiunnar

Vert er þó að spyrja hvaðan Guðmundur Óli en hann er fæddur og uppalinn í Reykjavík í Ljósheimunum. Hann byrjaði ungur að læra á píanó hjá móður sinni Guðrúnu J. Þorsteinsdóttur en hún var píanóleikari og kennari. Síðar bættist trompetinn við og tíu ára byrjaði hann í skólalúðrasveit Austurbæjar. Tónlistin hefur fylgt honum alla tíð og eftir stúdentspróf lá leiðin til Hollands þar sem hann stundaði nám í hljómsveitarstjórnun. „Ég spilaði sjálfur í alls konar hljómsveitum sem barn og unglingur og var byrjaður að stjórna kórum fyrir tvítugt. Og svo fór ég á alla sinfóníutónleika sem í boði voru, öll mín uppvaxtarár og heillaðist snemma af hlutverki hljómsveitarstjórans í því flókna gangverki sem gerir stórri hljómsveit kleift að hljóma sem ein heild.“ Eftir sex ára nám í Hollandi lá leiðin til Finnlands í framhaldsnám í hjómsveitastjórnun hjá Jorma Panula prófessor við Sibeliusarakademiuna. Að námi loknu var Guðmundur Óli ráðinn til starfa á Akureyri þar sem hann tók m.a. þátt í uppbyggingu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Fleiri myndbönd