-1.6 C
Selfoss

Leó ungbarnapeysa

Uppskrift okkar að þessu sinni er ungbarnapeysa úr nýju dásamlegu garni frá Permin sem heitir Leonora. Garnið er blanda, 50% silki, 40% ull og 10% mohair, lungamjúkt og áferðafallegt.

Stærðir: 62-68-74 sm.

Efni: 2 dk Leonora, hringprjónn og sokkaprjónar no 2,5 og 3,0, kaðlaprjónn/hjálparprjónn, prjónanælur, prjónamerki, 8 tölur.

Peysan er prjónuð neðan frá og upp.

Kaðall: Kaðlarnir ná yfir 10 l.

1.umf. 2 br, 6 sl, 2 br.
2.umf. 2 sl. 6 br, 2 sl.

3.umf. Fyrri kaðall: 2 br, setjið 3 l á hjálparprjón og geymið þær fyrir framan næstu lykkjur, prjónið næstu 3 l sléttar, svo lykkjurnar af hjálparprjóninum sléttar og 2 br. Seinni kaðallinn er prjónaður eins nema hvað nú eru lykkjurnar á hjálparprjóninum geymdar fyrir aftan næstu lykkjur.

4.umf.  2 sl. 6 br, 2 sl.
5.umf.  2 br, 6 sl, 2 br.6.umf. 2 sl. 6 br, 2 sl.

Endurtakið þessar 6 umferðir.

Hnappagat: Hnappagöt eru gerð í garðaprjónskantinum á 10 garða (20 umf.) fresti, það fyrsta þó eftir 2 garða (4 umf.)

Prjónið 2 l sl, 2 l saman sl, fitjið upp 2 l, takið næstu l óprjónaða og steypið henni yfir næstu l sem prjónuð er sl, prjónið síðustu l sl.

Bolur:

Athugið að fyrstu 6 l og síðustu 6 l eru alltaf prjónaðar sléttar og fyrsta lykkjan er alltaf tekin óprjónuð. Fitjið upp 155-165-175 l á prjóna no 2,5 og prjónið 8 umferðir brugðning, 1 sl og 1 br til skiptis. Skiptið yfir á prjóna no 3,0 og prjónið 6 l sléttar (garðaprjónskanturinn), 3 l sl, kaðall, slétt þar til 19 l eru eftir á prjóninum, þá kaðal, 3 l sl og 6 l sl. Snúið við og prjónið 6 sl, 3 br, kaðall, br þar til 19 l eru eftir á prjóninum, þá kaðal, 3 l br og 6 l sl. Prjónið þar til bolur mælist 24-25-26 sm (athugið að þessi peysa er viljandi höfð svolítið síð, vel má hafa hana allt að 6 sm styttri). Hvílið stykkið og prjónið ermar.

Ermar:

Fitjið upp 40-42-44 l á prjóna no 2,5, tengið í hring og prjónið stroff 1 sl, 1 br alls 6 umferðir. Skiptið yfir á prjóna no 3,0 og prjónið slétt. Setjið merki við upphaf umferðar og aukið út á u.þ.b. 2 sm fresti þar til alls eru 50-54-56 l á prjónunum. Prjónið þar til ermi mælist 16-17-18 sm. Setjið 2 síðustu og 2 fyrstu l umferðar á hjálparnælu. Prjónið aðra ermi eins.

Boðungur:

Prjónið alls 37-40-43 l af bolnum, setjið næstu 4 l á hjálparnælu, setjið prjónamerki, prjónið ermi við bolinn, setjið prjónamerki, prjónið bakstykki 73-77-81 l, setjið næstu 4 l á hjálparnælu, setjið prjónamerki, prjónið ermi við bolinn, setjið prjónamerki, prjónið síðustu 37-40-43 l af bolnum. Athugið að kaðlar haldast áfram allt upp í hálsmál sem og hnappagöt.

Nú er farið að gera laskaúrtökur á réttunni. Þær eru gerðar þegar 3 l eru að prjónamerkinu, fyrst er 1 l tekin laus af og steypt yfir næstu l sem prjónuð er sl, þá 2 l sl, loks 2 l saman. Haldið þannig áfram þar til 4 l eru á milli laskaúrtaka á ermum. Í næstu br umferð er fækkað um 24-26-26 l jafnt yfir fram og bakstykki, þó ekki á garðaprjónskantinum, þeir halda sér óbreyttir. Í næstu umferð er prjónað stroff yfir allar l á milli garðaprjónskantanna, 1 sl, 1 br, alls 6 umferðir. Athugið að gera síðasta hnappagatið í annarri stroffumferðinni.

Fellið laust af, lykkjið saman í handvegi, saumið tölur á, gangið frá endum og  skolið úr mildu sápuvatni. Leggið til þerris.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

Fleiri myndbönd