-5.2 C
Selfoss

Dreymir um tónlistarlegan vettvang þar sem ríkir traust og virðing

Dreymir um tónlistarlegan vettvang þar sem ríkir traust og virðing

Herdís Rútsdóttir, tónlistarkennari og söngkona úr Austur- Landeyjum, sem búsett er á Selfossi, fór nýlega af stað með söngnámskeið fyrir krakka á aldrinum 8-15 ára sem ber heitið „Söngur, sjálfstraust og sjálfstyrking“.

Hugmyndin um að halda söngnámskeið fyrir krakka á þessum aldri hefur lengi blundað í Herdísi. „Eftir að ég fór að kenna tónmennt í Sunnulækjarskóla í haust fann ég að þetta var eitthvað sem ég yrði að gera á þessum tímapunkti. Ég hef sjálf verið mikið að syngja frá unga aldri og er einn aðal hvatinn minn að ná að „normalisera“ þessar kvíðatengdu og neikvæðu hugsanir sem við veltum upp í kollinum á okkur, hver í sínu horni. Eins og til dæmis, „þetta verður ekki nógu gott hjá mér“ eða „öllum á eftir að finnast ég léleg/ur“ þessar pælingar eru svo brjálæðislega algengar og trúlega hugsum við söngfuglarnir þær öll á einhverjum tímapunkti í lífinu. Þess vegna er draumurinn minn að skapa tónlistarlegan vettvang, byggðan upp á hópum þar sem ríkir traust og virðing. Hver tími hefur þema, t.d. verður byrjað á að fjalla um kvíða, næst æfum við okkur að hrósa og taka hrósi, svo verður unnið með markmiðasetningu, jákvæðni, hugrekki, sjálfsmildi og annað uppbyggilegt efni sem veitir ekki af að fræða ungt fólk um í þessum stafræna heimi sem við búum í,“ segir Herdís.

Einstaklingsmiðuð kennsla

„Mér finnst söngur og framkoma vera kjörinn vettvangur til að byggja upp sjálfstraust og efla krakka á svo margan hátt. Í tímunum munu krakkarnir bæði syngja saman og svo fær hver fyrir sig einstaklingsmiðaða kennslu og þá horfa hinir í hópnum á á meðan að einn syngur, þá fá þau einstaklingsmiðaða endurgjöf og geta líka lært af því að horfa á hina ásamt því að æfa sig í því að koma fram í leiðinni. Námskeiðið er nýfarið af stað og eru ennþá nokkur laus pláss fyrir áhugasama, en einnig mun nýtt námskeið fara af stað í byrjun janúar. Skráningin fer fram í gegnum netfangið herdisrutsd@gmail.com og eru nánari upplýsingar um námskeiðið að finna á fésbókarsíðunni Herdís Rúts Music,“ segir Herdís að lokum.

Það er alltaf nóg að gera hjá Herdísi, að auki við námskeiðshald og tónmenntarkennslu er hún dugleg að koma fram og mun hún syngja á tónleikum sem verða í Tryggvaskála í kvöld, 17. Nóvember kl. 21. og næst í Midgard á Hvolsvelli um næstu helgi.

Fleiri myndbönd