-5.2 C
Selfoss

25 ár á leiðinni til Ameríku

Í októbermánuði var stuttlega fjallað um íslenska torfæru sem fram fór í Bikini Bottoms OffRoad Park í Dyersburg, Tennessee í Bandaríkjum Norður- Ameríku þar sem nokkur hundruð íslendingar fylgdust með þegar 16 ökumenn á íslenskum torfærubílum öttu kappi. Í þremur efstu sætunum voru jafn margir Sunnlendingar. Í fyrsta sæti var Geir Evert Grímsson frá Selfossi á Sleggjunni, í öðru sæti var Ingvar Jóhannesson frá Vík á Víkingnum og í þriðja sæti var Guðmundur Elíasson frá Vík á Ótemjunni.

Mynd: Heiða Björg Jónasdóttir

Guðbjörn Grímsson, oftast kallaður Bubbi, er maðurinn á bakvið þessa skemmtilegu torfæru. „Þetta byrjaði fyrir nokkuð mörgum árum síðan, eða árið 1990, þegar við fórum með torfæruna til Svíþjóðar, ég og Ragnar Heiðar Kristinsson heitinn eða Raggi smiður, vorum saman í stjórn Jeppaklúbbs Reykjavíkur. Við skipulögðum ferð til Svíþjóðar en hann og Steini Sím fóru með hópinn vegna þess að ég átti ekki heimangengt og við ætluðum svo árið eftir til Bandaríkjanna. Árið eftir varð síðan ekki fyrren 2016, en ég byrjaði að endurvekja drauminn um þetta Ameríkuævintýri í kringum 2010.“

 

Amerískt stórgrýti hentar ekki Íslenskum torfærubílum

Bubbi segir að aðal vandamálið sé að fá svæði fyrir keppnirnar. „Ég komst að því fljótlega þegar ég fór að skrölta um Ameríku og skoða svæði og annað, ég fann svæði sem voru fín en til þess að geta keppt þurftum við að sækja um leyfi og fleira og þetta hefði verið fjárfesting sem hefði hlaupið á tæpri milljón dollara, ef maður hefði ætlað að skella í torfærukeppni á svæði sem var ekki fyrirfram tilgreint akstursíþróttasvæði eða leiksvæði. Þannig að ég fór að skoða „parka“ eða „offroad parka“ eins og Bikini Bottoms eru, en flest af þessum svæðum í Bandaríkjunum sem ég skoðaði eru bara í stórgrýti sem hentaði okkur ekki, við þurfum að hafa möl, mold eða fínna efni.“

Hélt að hann væri sölumaður

„Svo var það fyrir tilviljun að ég var að horfa á Youtube myndband frá Bikini Bottoms á 17. júní 2015 þegar ég sá að þar var réttur jarðvegur. Ég reif upp símann og hringdi í Bob Williams, en hann og Pam, konan hans eru eigendur Bikini Bottoms OffRoad Park. Í fyrstu hélt hann að ég væri að reyna að selja honum eitthvað og skildi ekki alveg hvað ég var að tala um. Svo hringdi hann í mig korteri seinna, þá var hann búinn að átta sig á því að ég væri ekki að reyna að selja honum neitt, var búinn að finna út hvað torfæran var og var orðinn fullur áhuga. Svo mikið að hann kom og heimsótti mig til Noregs og fór með mér á torfærukeppni þar, kom líka til Íslands og úr varð að við ákváðum bara að kýla á þetta,“ segir Bubbi.

Mynd: Heiða Björg Jónasdóttir

Allt gert fyrir Íslendingana

Bubbi fór ásamt Árna Kóps og Gulla Helga til Ameríku til að skoða svæðið í Bikini Bottoms. „Það var allt fullt af trjám og eiginlega ekkert pláss til að keyra í, ég sagði að það þyrfti að taka eitthvað af þessum trjám. Ekkert mál sagði Bob, ríf þau öll niður, nema þessi þrjú þarna. Þessi þrjú eru þarna ennþá en allt hitt fór bara í burtu og svo varð gerð brekka fyrir torfæru. Ég held að torfæran hefði aldrei farið af stað í Ameríku ef ekki væri fyrir Bob. Hann er með fyrirtæki með gröfur og annað svo að þetta var ekki flókið fyrir honum.“

Íslendingarnir full villtir

Það var svo árið 2016, ári eftir að Bubbi sá þetta örlagaríka Youtube myndband að Íslenska torfæran fór til Ameríku, 25 árum á eftir áætlun. „Í rauninni var hugmyndin aldrei að fara með meira en einn gám og tíu kalla út, bara sýna hvað við værum að gera. En það endaði í 16 bílum og á bilinu 3-400 manns og það var búin til bíómynd um þetta meira að segja. Við fórum svo þarna á hverju ári fram að covid og svo núna fyrst aftur eftir það. Fyrst og fremst erum við að þessu til að leika okkur og hafa gaman. Þó þetta sé sýningarkeppni þá er þetta samt full keppni með verðlaunum og öllu. Við eigum erfitt með að fá kanann til að byggja bíla og keyra með okkur, ég hef grun um að þeim finnist við full villtir,“ segir Bubbi og hlær.

Mynd: Heiða Björg Jónasdóttir

„Óli á Ljónsstöðum heitinn kom inn sem ómetanleg aðstoð við að peppa upp í mönnum í fyrstu keppninni árið 2016. Óli var jafn einstakur og Raggi á sinn hátt, held það sé enginn torfæruökumaður sem Óli sponsaði ekki á einhvern hátt, svo má ekki gleyma Elvu Stefánsdóttur sem var með í USA bröltinu frá 2014. Hún sá um mikið af samskiptum við USA og kom að skipulagningu keppna frá upphafi og var allavega mín hægri ef ekki báðar hendur“ segir Bubbi.

En verður farið út á næsta ári? „Það getur vel verið að einhver taki þetta að sér en ég sjálfur ætla ekki að gera neitt fyrr en á 60 ára afmæli torfærunnar 2025. Hvort það verður í Bikini Bottoms eða einhversstaðar annarsstaðar á eftir að koma í ljós,“ segir Bubbi að lokum.

Fleiri myndbönd