-5.2 C
Selfoss

Mæðgnahöfundar á Konubókastofu

Draumey Aradóttir og Sunna Dís Másdóttir eru ljóðahöfundar og mæðgur. Hafa þær báðar gefið út ljóðabækur, þó ekki saman. Síðastliðinn sunnudag, 30. október, voru þær með höfundakynningu á Konubókastofu – Eyrarbakka.

Sunna Dís er ein af konunum sem mynda hópinn Svikaskáld, samið þar ljóð í samvinnu við fimm aðrar konur og gefið þau út, ásamt skáldsögu. Nú í haust kom út ljóðabók eftir hana sem heitir Plómur. Draumey, móðir Sunnu Dísar, hefur gefið út nokkrar ljóðabækur og heitir sú nýjasta Varurð. Þær mæðgur styðja hvor aðra í skrifunum og gaman var að heyra þær lýsa þeirri samvinnu. Eins nutu gestir að hlýða á þær lesa upp úr bókum sínum og eftir upplesturinn var líflegt bókmenntalegt spjall.

Næsta höfundakynning mæðgna á Konubókastofa verður 13. nóvember nk. þar sem Auður Ava Ólafsdóttir mun mæta ásamt dóttur sinni Arndísi Lóu Magnúsdóttur. Kynningin hefst klukkan 15:00. Auður Ava hefur skrifað skáldsögur sem vakið hafa mikla athygli innanlands sem utan og fengið fyrir þær viðurkenningar og verðlaun. Núna kemur út eftir hana skáldsagan Eden. Árið 2020 gaf Arndís Lóa út ljóðabókina Taugaboð á háspennulínu og hlaut mikið lof fyrir, var m.a. tilnefnd til Maístjörnunnar fyrir ljóðabók ársins. Á þessu ári kemur út eftir hana ljóðsagan Skurn.

Fleiri myndbönd