-3.2 C
Selfoss

Elísabet Björgvinsdóttir sigraði í Söngkeppni NFSu

Selfyssyngurinn Elísabet Björgvinsdóttir kom, sá og sigraði í glæsilegri Söngkeppni NFSu sem haldin var nú í kvöld. Elísabet kemur þar af leiðandi til með að taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna á vordögum fyrir hönd Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Elísabet fór lystilega með slagara Arethu Franklin (You Make Me Feel Like) A Natural Woman, en augljóst var að henni leið vel á sviðinu og átti hún hug og hjörtu dómnefndar eftir frábæran flutning.

Í öðru sæti var Hugrún Tinna Róbertsdóttir sem söng Daddy´s lessons með Beyoncé og í því þriðja var Ásrún Aldís Hreinsdóttir með lag Rihönnu, Love on the brain. Þá fékk Elín Karlsdóttir verðlaun fyrir frumlegasta atriðið en hún söng lagið Echoes með Pink Floyd.

Þema keppninnar í ár var Grease og er skemmst frá því að segja að nemendafélaginu hafi tekist vel til en öll umgjörðin var til fyrirmyndar. Húsband skólans, Koppafeiti steig á svið og skemmti gestum á meðan dómarar réðu ráðum sínum. Auk koppafeitinnar var stórkostlegt dansatriði á vegum DWC og Emilía Hugrún Lárusdóttir, sem sigraði í söngkeppninni fyrra og í kjölfarið Söngkeppni framhaldsskólanna, sló botninn í spennuþrungna biðina eftir úrslitum kvöldsins með því að syngja tvö lög af sinni alkunnu snilld.

Fleiri myndbönd