3.9 C
Selfoss

Hvað er heilsulæsi?

Bettý Grímsdóttir, klínískur heilsugæsluhjúkrunarfræðingur.

Heilsulæsi hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið og hafa stjórnvöld meðal annars lagt áherslu á að auka heilsulæsi meðal almennings. En hvað felst í hugtakinu heilsulæsi og hvers vegna skiptir það máli?

Heilsulæsi má skilgreina sem þekkingu og hæfni fólks til að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi sjúkdómsvarnir, heilsueflingu og heilbrigðisþjónustu. Heilsulæsi skiptir máli vegna þess að það hefur áhrif á heilsu og vellíðan einstaklinga þar sem gott heilsulæsi eykur líkur á heilsusamlegu líferni og hefur jákvæð áhrif á langvinna sjúkdóma. Einnig hefur gott heilsulæsi áhrif á það hvernig við notum heilbrigðisþjónustuna og getur þannig dregið úr álagi og kostnaði í heilbrigðiskerfinu.

Oft getur verið erfitt að átta sig á hvort þær upplýsingar sem við fáum úr fjölmiðlum og á alnetinu um heilbrigða lífshætti og sjúkdóma séu réttar. Ekki er alltaf ljóst hvort rannsóknir liggi á bak við það sem er verið að fræða okkur um eða hvort það sé hrein og klár markaðssetning sem liggi að baki. Mikilvægt hlutverk heilbrigðisþjónustunnar er að veita almenningi upplýsingar sem gera því kleift að skilja hvað hefur áhrif á heilsu og vellíðan og hvernig megi stuðla að góðri heilsu. Þess vegna er hlutverk heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisstofnana mikilvægt í að efla heilsulæsi. Með því að stuðla að því að fólk, með ólíkar þarfi og bakgrunn, geti tekið upplýstar ákvarðanir um eigin heilsu og meðferð er hægt að auka heilsulæsi. Dæmi um aðgerðir stjórnvalda til að auka heilsulæsi er upplýsingavefurinn Heilsuvera.is en þar er auðvelt fyrir almenning að nálgast upplýsingar um sjúkdóma, forvarnir og leiðir til að efla heilbrigði. Að Heilsuveru standa Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali en þar er að finna þekkingu og fræðslu um þroska, sjúkdóma, heilsu og áhrifaþætti heilbrigðis sem byggja á rannsóknum og eru skrifaðar af fagaðilum.

Pistillinn er birtur í tengslum við Forvarnarviku HSU þar sem í ár er lögð áhersla á streitu og lífstíl.

Bettý Grímsdóttir,
Klínískur heilsugæsluhjúkrunarfræðingur

Fleiri myndbönd