-6.7 C
Selfoss

Arabísk leiðsögn um Listasafn Árnesinga

Á morgun, 29.október kl 14:00 mun Listasafn Árnesinga í Hveragerði bjóða upp á leiðsögn um sýninguna Summa & Sundrung á arabísku.

Yara Zein mun leiða um sýninguna en sjálf er hún myndlistarkona sem er fædd og uppalin í Líbanon en er nú búsett á Íslandi. Með þessum viðburði er markmiðið að ná til arabískumælandi íslendinga og kynna fyrir þeim listasafnið, sögu þess og tilurð auk leiðsögn um yfirstandandi sýningu.

Tilgangurinn með leiðsögninni er að veita þessum hópi samfélagsins vettvang til að njóta listar og menningar á sínu tungumáli.

Á sýningunni Summa & Sundrung sýna Steina og Woody Vasulka verk sín auk Gary Hill. Öll voru þau frumkvöðlar í vídeólist á sínum tíma og sýningin spannar breitt tímabil í feril þeirra.

Bakgrunnur Yöru er einnig í vídeólist og hefur hún því góða innsýn og skilning á miðlinum og er mikill kostur að fá hana til að fjalla um sýninguna á sínu tungumáli.

Listasafnið vill tengja anga sína út til allra hópa samfélagsins og fagnar öllum gestum sem koma úr ólíkum áttum sem sækja safnið.

„Við hvetjum alla sem hafa tengsl við arabískumælandi fólk að láta þau vita og hvetja þau til að koma,“ segir í tilkynningu frá listasafninu.

Fleiri myndbönd