7.3 C
Selfoss

Bleiki dagur Lobbýsins á laugardaginn

Vinsælast

Lobbýið, hársnyrtistofa á Selfossi, ætlar á laugardaginn (29. okt.) að endurtaka leikinn frá því í fyrra og halda hátíðlega uppá bleikan október. Starfsfólk Lobbýsins mun taka vel á móti gestum á laugardaginn frá kl. 10 til 14, þar sem fólki gefst kostur á að koma í klippingu, skeggsnyrtingu eða hárþvott. Lágmarksgjald á þjónustu verður 6.000 kr., og mun öll innkoman renna óskipt til Krabbameinsfélags Árnessýslu.

„Bleiki dagurinn okkar er kominn til að vera,“ segir Rebekka Kristinsdóttir, einn af eigendum Lobbýsins. „Við fengum ótrúlega góð viðbrögð þegar við héldum uppá bleika daginn í fyrra og einnig þegar við vorum með opinn dag í mars, þegar Mottu Mars átakið var í gangi.“

Með þessum tveimur góðgerðardögum sem Lobbýið er búið að halda hefur þeim tekist að safna tæpri einni miljón króna sem hefur runnið óskipt til Krabbameinsfélags Árnessýslu. „Þessir dagar eru ótrúlega skemmtilegir og okkur þykir mjög vænt um hvað fólk hefur tekið vel í þetta. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta og styrkja þetta góða og mjög svo þarfa málefni,“ segir Rebekka í lokin.

Líkt og síðustu tvö skipti ætla bakaradrengirnir í GK bakaríi á Selfossi að sjá til þess að allir fái eitthvað gott í gogginn, en einnig verða drykkir frá Ölgerðinni í boði. Fullt af fyrirtækjum hafa gefið vinninga í happdrætti, en allir þeir sem kaupa þjónstu eða varning frá Krabbameinsfélaginu fara í happdrættispottinn. Nánar um vinningana má sjá á samfélagsmiðlum Lobbýsins.

Við hvetjum alla til mæta á laugardaginn í Lobbýið og styrkja þetta góða málefni.

Nýjar fréttir