Skammmdegishátíðin Þollóween hefst í dag með þéttri dagskrá út vikuna.
Í dagskránni í ár er eins og áður viðburðir fyrir alla aldurshópa og fastir liðir eins og skelfilega skrautsmiðjan þar sem bæjarbúar hittast til að skera út grasker og fleira, skelfileg sundstund, barnaviðburðurinn grafir og bein og auðvitað grikk eða gott á sínum stað. Til viðbótar má nefna hrekkja-jazz tónleika, hryllingssögukeppni nemenda í Grunnskóla Þorlákshafnar, taugatrekkjandi flóttaherbergi (escape room) sem er unnið í samstarfi við björgunarsveitina, miðilsfund í versölum og draugahús sem að þessu sinni er haldið á efstu hæð í húsnæði sögufræga fiskvinnsluhússins sem síðast hét Frostfiskur. Hæðin sem áður var verbúð hefur nú verið breytt heimsklassa draugahús en unnið hefur verið að því síðasta mánuðinn enda stórt og gott rými sem nefndin hafði til að vinna úr. Hugrökku gestirnir sem koma í draugahúsið á föstudagskvöldið ganga í gegnum ólíkar leikmyndir þar sem fjölmargar skuggalegar verur leynast. Þetta er sannarlega skelfileg leikhúsupplifun!
Hátíðin klárast á laugardagskvöldið þegar kyngimagnað Nornaþing verður haldið, sá viðburður er eingöngu ætlaður nornum. Þar verður Pálínuboð, Blush heldur kynningu, Guðrún Árný sér svo um að hita alla upp fyrir rosalegt karaoke partý með Daníel Hauk. Miðasala á Nornaþingið fer fram á Kaffiskjóðunni. Nánar má lesa um það og alla aðra viðburði á facebook síðu Þollóween.
Þetta er í fimmta sinn sem Þollóween er haldið í Þorlákshöfn og sem fyrr er það vaskur hópur kvenna stendur að hátíðinni, sér um allt skipulag, framkvæmd og fjármögnun en Sveitarfélagið Ölfus styður við hátíðina og styrkir hana um 500.000 kr.
Eins og áður taka stofnanir og fyrirtæki í bænum virkan þátt í hátíðinni, bæði leikskólinn Bergheimar og Grunnskólinn í Þorlákshöfn, bókasafn Ölfuss, Björgunarsveitin Mannbjörg og Slysavarnafélagið Sigurbjörg, Sundlaug Þorlákshafnar, Kaffiskjóðan, Cafe Bristól, frístundaheimilið, félagsmiðstöðin og fleiri.
Verið öll hræðilega velkomin!