Út er komin bókin Gaddavír og gotterí sem segir frá lífi barna í sveit fyrir nokkrum áratugum. Leiksvæðið er sveitin, leikfélagarnir systkinin og dýrin, útvarpið og sveitasíminn eru tengingin við umheiminn.
Höfundur bókarinnar, Lilja Magnúsdóttir, hefur búið á Kirkjubæjarklaustri og verið þar starfsmaður á Kirkjubæjarstofu þar sem hún var meðal annars kynningarfulltrúi Skaftárhrepps . Lilja er íslenskufræðingur með kennarapróf og meistarapróf í ritstjórn og útgáfu. Árið 2018 kom út spennusagan Svikarinn eftir Lilju. Sú bók var gefin út 2019 í hljóðbók og hefur verið mikið lesin á Storytel.
Í bókinni eru tíu sögur sem segja frá lífinu í sveitinni þar sem þarf að marka, rýja og keyra á fjall, sækja kýrnar, tína ber, fara í réttirnar, reka féð heim og margt annað. Þegar fjölskyldan á frí er skroppið til ömmu og afa. Afi á tóbak sem er gaman að prófa og amma á hænur sem krakkarnir taka að sér að baða með misgóðum árangri. Flest sem krakkarnir taka sér fyrir hendur er skemmtilegt en það getur líka verið hættulegt. Efnið er bernskuminningar höfundar en nöfnum er breytt, persónur lagaðar til, sumt er uppspuni frá rótum og annað dagsatt. Lilja ólst upp í Borgarfirði en sögurnar gætu hafa gerst hvar sem er í sveit á Íslandi þegar engir skjáir voru á heimilum, útvarpið var helsta afþreyingin og fjarskiptin fóru fram í gegnum sveitasímann.
Sögurnar eru myndskreyttar af tveimur listakonum. Sigríði Ævarsdóttur sem hestavinir þekkja sem Siggu, en hún myndskreytir bókina Tölum um hesta sem þau hjón Sigga og Benni gáfu út. Hestamyndir Siggu eru einstakar eins og forsíðumyndin sýnir. Hin listakonan er Ólöf Rún Benediktsdóttir, dóttir höfundar, sem nam myndlist við Listaháskóla Íslands. Ólöf Rún hefur einnig lært tónsmíðar, söng og hljóðvinnslu og flutti framsamið lag og texta, við mjög góðar undirtektir gesta, á útgáfuhófinu sem var haldið 15. september í Bókasamlaginu Skipholti.
Lilja Magnúsdóttir gefur bókina út sjálf í samstarfi við Bókasamlagið. Bókina má kaupa hjá höfundi en hún er einnig komin í bókabúðir Pennans Eymundsson og fæst í vefverslun Bókasamlagsins.