-2.8 C
Selfoss

Varðveisluhúsi Byggðasafns Árnesinga opið gestum

Vinsælast

Opið hús verður að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka þar sem Byggðasafn Árnesinga er með alla sína innri starfsemi sunnudaginn 23. október kl. 14-17. Starfsmenn safnsins verða með leiðsagnir og jafnframt verður gamall og heillandi skólaskápur kynntur sérstaklega í tilefni 170 ára afmælis Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Varðveisluhús safnsins var tekið í notkun haustið 2021 og þar eru varðveittir um 6.000 safnmunir frá allri Árnessýslu og nær 7000 ljósmyndir. Byggingin er hólfuð niður í ólík varðveislurými til að búa til kjöraðstæður fyrir ólíka gripi. Eitt mikilvægasta verkefni safnsins er varðveisla. Allir safngripir hvort sem þeir eru á sýningu eða staðsettir í varðveisluhúsi geyma í sér minni samfélagsins um menningararfleið þess. Þannig er það stórt hlutverk safns að skrá og varðveita safngripi og bæði miðla í gegnum gagnagrunn og veita tryggt aðgengi að þeim.  Aðstaðan á Búðarstíg er í alla staði glæsileg og er óhætt að fullyrða að framtíð safnmuna Árnessýslu er vel tryggð.   

Gamli skólaskápurinn – 170 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri

Á opnu húsi viljum við beina sérstakri athygli að heillandi skólaskáp fullum af gömlum náttúrugripum. Peter Nielsen verslunarstjóri á Eyrarbakka gaf barnaskólanum í þorpinu náttúrugripasafn sitt árið 1924. Skólinn fékk Eirík Guðmundsson smið á Eyrarbakka til að smíða stóran og mikinn skáp um safnið. Skápurinn hefur átt mörg líf en var falinn Byggðasafni Árnesinga til varðveislu árið 2017.

Peter Nielsen hafði sérstakt áhugamál sem voru náttúrufræðirannsóknir og söfnun náttúrugripa eins og fuglshami og útblásin egg. Aðstöðu til rannsókna sinna hafði hann í sérstakri byggingu norðan við Húsið á Eyrarbakka, Eggjaskúrinn svonefndi sem er hluti af sýningarsvæði safnsins í dag. 

Starfsmenn safnsins bjóða öll kærlega velkomin. 

Nýjar fréttir