-1.6 C
Selfoss

Spenntur að fá „Skannað og skundað“ á Hvolsvöll

Vinsælast

„Ég hlakka til að kynna Skannað og skundað fyrir viðskiptavinum okkar hér, já og að kynnast því sjálfur,“ segir Guðmundur Jónsson, verslunarstjóri Krónunnar á Hvolsvelli. Frá og með miðvikudeginum, 19. október, verður í boði að skanna vörurnar með símanum og greiða fyrir innkaupin í snjallverslunarappi Krónunnar.

„Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvernig heimamenn taka þessari nýjung. Sjálfsafgreiðslukassarnir urðu jú atriði á þorrablótinu,“ segir hann og hlær.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir þau hjá Krónunni stolt af því að vera fyrst til að kynna þessa verslunarleið hér á landi og nú á Hvolsvelli. „Það er alveg ný upplifun að skanna vörurnar beint í pokann. Þetta er einföld og skemmtileg leið til að versla,“ segir hún og hvetur viðskiptavini til að prófa.

„Bæði tími og fyrirhöfn sparast með appinu. Það er sérlega hentugt þegar skjótast þarf í búðina en við sjáum marga nota það líka fyrir stóru innkaupin.“ Krónan stefni á að þróa þjónustuna enn frekar. „Við erum alltaf að leita leiða til að styðja fólk sem vill bæta lífsgæði sín, bæði við innkaupin og í vöruúrvali.“

Guðmundur hefur verið verslunarstjóri í Krónunni á Hvolsvelli frá sumrinu 2018. Hann var áður verslunarstjóri í Krónunni í Lindum Kópavogi og þar áður á Bíldshöfða. „Krónan á Hvolsvelli hafði aðeins verið rekin undir þeim merkjum í fjóra mánuði þegar ég tók við.“ Hann segir mikilvægt að verslunin sé fyrir heimamenn.

„Ég er virkur inni á Facebook-síðu Rangárþings og fyrir tveimur árum óskaði ég eftir ábendingum um vörur sem fólk vildi sjá í versluninni. Síðan þá höfum við bætt 1.000 vörunúmerum við, endurraðað og breytt skipulaginu,“ segir hann.

„Þetta jók ánægju viðskiptavina. Við fáum oft hrós fyrir búðina.“ Hann segir marga hafa orðið hissa þegar hann kaus að færa sig úr borginni á Hvolsvöll. „Mig langaði að breyta til og það var tilviljun að við Sara Lind konan mín enduðum hér,“ segir hann. „Ég get sagt að það að flytja hingað á Hvolsvöll er besta ákvörðun sem við höfum tekið. Það er mjög gott að vera hérna.“ Hann lýsir fyrstu mánuðunum á Hvolsvelli.

„Við hjónin spurðum okkur fyrsta hálfa árið: Hvað erum við búin að koma okkur í?“ Hann hafi þá ákveðið að vinna markvisst að því að kynnast fólki. Þá hafi gömul tengsl hjálpað.

„Það vill svo skemmtilega til að langafi minn rak Jóa búð hér í gamla daga. Þau amma og afi eru jarðsett undir Eyjafjöllun. Ég hitti því fjarskylda ættingja í hverju spori og þau uppgötvuðu mig: Ert þú ekki sonur Jóns? Ég er frænka þín,“ segir Guðmundur og hlær og er ekki á leið til baka í borgina.

„Það eru forréttindi að vera hérna með börnin. Ég mæli með svona ákvörðun fyrir barnafólk. Við erum með fjögur börn, tvö kríli og 9 og 11 ára og elskum að vera hér.“

Nýjar fréttir