-5.8 C
Selfoss

Menningarganga í Árborg

Vinsælast

Október er menningarmánuður í Árborg, stútfullur af spennandi viðburðum sem endurspegla grósku og sköpunarkraft í ört stækkandi sveitarfélagi. Laugardaginn 22. október verður boðið upp á MENNINGARGÖNGU Árborgar í allra fyrsta sinn. Þá ætlar listafólk í Árborg að opna vinnustofur sínar og gallerí fyrir gestum og gangandi, leyfa fólki að líta við og skoða afrakstur sköpunar sinnar. Einnig verða ýmis menningarhús opin þar sem upplifa má fjölbreytt listform svo sem málaralist, leirlist, tónlist, ritlist, prjónalist, fatahönnun, vefnað, ljósmyndun og útskurð.

Að baki MENNINGARGÖNGUNNAR standa þær Auður I. Ottesen (eigandi Sumarhússins og garðsins), Alda Rose Cartwright (eigandi Brimrótar CO-UP á Stokkseyri) Heiðrún D. Eyvindardóttir (forstöðumaður Bókasafns Árborgar) og Sigrún Þuríður Runólfsdóttir (eigandi Skrúfunnar á Eyrarbakka). Með framtakinu vilja þær sameina krafta þeirra frábæru listamanna sem búa í Árborg og leyfa sem flestum að upplifa þá margþættu sköpun sem þar fer fram. Þær stofnuðu fésbókarsíðuna Menningarvitar í Árborg sem vettvang fyrir listamenn og áhugafólk um listir og menningu til að miðla og njóta gróskumikils menningarlífs í sveitarfélaginu. Þær hvetja alla áhugasama um að fylgja síðunni.

Nú um helgina er tækifæri til að virða fyrir sér list, mögnuð málverk og listilega mótað keramik, skoða aðventuskreytingar, hlýða á sögur og ljóð, skoða vefnað úr þara, læra að gera eigin olíuliti, hlusta á fallega tóna, njóta skartgripalistar, ljósmynda og prjónalistar, sjá handgerða útskorna fugla úr tré, upplifa hringlaga ullarlistaverk og vegan súkkulaðitrufflur, finna ilminn af handgerðum náttúrusápum og hlusta á magnaða tónlistarkonu spila á sekkjarpípu. Viðburðir MENNINGARGÖNGUNNAR eru ótal margir og afar fjölbreyttir en um það bil 40 listamenn taka þátt á 22 stöðum. Aðgangur er ókeypis og því er ekkert til fyrirstöðu að bregða undir sig betri fætinum og gera sér dagamun í fallegu Árborg.

Frekari upplýsingar veita:
Auður I. Ottesen, audur@rit.is, s 824 0056
Sigrún Þ. Runólfsdóttir skrufan@skrufan.is,  s 849 9315
Alda Rose Cartwrigh aldarosec@gmail.com, s 892 4410
Heiðrún D. Eyvindadóttir heidrun@arborg.is, s 865 7011

Nýjar fréttir