-1.4 C
Selfoss

Rífandi fjör á hrútasýningu Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna

Vinsælast

Sú skrautlegasta var forystugimbrin Geðprýði sem einnig stýrði rollu­bingóinu.

Fjölmenni sótti vel heppnaða hrútasýningu sem Sauðfjárræktarfélag Hrunamanna hélt laugardaginn 15. október sl. í Reiðhöllinni á Flúðum. Ekki var aðeins margt um manninn heldur var líka mikið af fallegu fé. Alls komu kindur frá tólf bæjum í sveitinni og gat þar að líta lambhrúta af ýmsum litum og gerðum og lambgimbrar sömuleiðis og margar mjög litskrúðugar. Einnig mátti sjá forystufé. Það kom einmitt í hlut forystugimbrarinnar Geðprýði að útnefna sigurvegara í rollu-bingóinu en þar var afgirtu hólfi skipt í 36 reiti og viðstaddir biðu í ofvæni eftir því að Geðprýði gerði stykkin sín í réttu reitina! 

Dómarar og helstu úrslit

Sérlegir dómarar hrútasýningarinnar voru sem fyrr Sigurfinnur Bjarkarsson frá Tóftum og Jökull Helgason á Ósabakka.  Þeir sýndu mikla færni í störfum sínum og útskýrðu dómana fyrir viðstöddum. Keppt var í hinum ýmsu flokkum. Í flokki mislitra lambhrúta varð efstur grár hrútur (undan Bekrasyni) frá Skipholti 3, í öðru sæti varð Hnokkasonur frá Þverspyrnu og í því þriðja varð mórauður hrútur frá Hruna undan Gretti. Í hópi veturgamalla hrúta varð í fyrsta sæti hrútur frá Langholtskoti undan Heimakletti, í öðru sæti hrútur undan heimahrúti í Hruna og í því þriðja Heimaklettssonur frá Þverspyrnu. Í fyrsta sæti í flokknum ,,best gerða gimbrin” varð gimbur frá Hrepphólum sem er undan Amorssyni, í öðru sæti gimbur frá Hruna undan Viðari sæðingarstöðvarhrúti og í því þriðja gimbur frá Grafarbakka undan heimahrúti. Um fjörtíu hrútar komu til álita í flokki hvítra lambhrúta en þar varð efstur, eftir mikið þukl og vangaveltur hjá dómurum, hrútur frá Hruna sem er undan heimahrúti, í öðru sæti varð kollóttur hrútur frá Magnúsi og Alinu á Kópsvatni sem er ættaður frá Broddanesi á Ströndum og í því þriðja hrútur frá Haukholtum undan Viðari.

Þukl, skrautlegasta gimbrin og ,,íhaldsmaðurinn“ 

Þá var gestum hrútasýningarinnar boðið að þukla fjóra lambhrúta og raða þeim upp eftir gerð. Góð þátttaka var í þuklinu og svo fór að Björgvin Ólafsson frá Hrepphólum og Ragnar Lúðvík Jónsson, tengdasonur á Högnastöðum, fóru með sigur af hólmi. Einnig kom til kasta allra viðstaddra á sýningunni að kjósa skrautlegustu gimbrina en þar komu margar fallegar til álita. Þegar búið var að telja upp úr kössunum stóð efst móflekkótti bingóstjórinn, Geðprýði, frá Hrafnkelsstöðum. Það kom loks í hlut ,,íhaldsmanns” síðustu hrútasýningar, Unnsteins Hermannssonar í Langholtskoti, að útnefna arftaka sinn. Hann valdi Óskar Snorra Óskarsson, frá Hruna, ,,íhaldsmann sýningarinnar” eftir elju og dugnað við að halda lömbum af öllum stærðum og gerðum undir dóm. Stjórn Sauðfjárræktarfélagsins þakkar öllum gestum og þátttakendum á hrútasýningunni fyrir ánægjulega og vel heppnaða samveru.  Styrktaraðilar hrútasýningarinnar í ár voru: Lífland, Fóðurblandan, Sláturfélag Suðurlands, Aflvélar, Kjörís, Landstólpi, Þór, Brytinn Restaurant og Hótel Flúðir.

Nýjar fréttir