-7.7 C
Selfoss

Rófusúpa, Blómkálsmauk, Grænkálspestó og Ekta frönsk lauksúpa með skessujurt

Vinsælast

Hjörtur Benediktsson er Sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Takk fyrir þessa miklu  áskorun Ingi Þór.   Ég er talsmaður íslenskrar matargerðarlistar og þess vegna  nota ég eins mikið íslenskt hráefni og hægt er. Er hrææta en borða töluvert grænmeti með, einkum  það sem ég rækta sjálfur. Það verður að segjast eins og er að ég er orðinn töluvert slyngur að grilla en skussi við annað, er þó alltaf að læra. Mottóið er að hafa kjötið ekki of lengi á grillinu, heldur láta það hvíla undir álpappír, þá heldur það áfram að eldast og verður ekki brennt og hart.

Ég ætla hins vegar að kynna fyrst  til leiks rófusúpu og styðst við uppskrift sem finna má inn á rofa.is sem er síða sem Félag gulfrófnabænda heldur úti. Ég hef verið stórræktandi í rófum og finnst því mega nota þær miklu meira t.d. í stað innfluttra sætkartafla. Rófan er góð bæði; hrá, steikt og soðin, inniheldur mikið c vitamin og oft kölluð sítróna norðursins. Aðrar uppskriftir eru fengnar hjá landsliðskokkum og öðrum velunnurum sem lögðu mér lið, en margir vildu leggja hönd á plóg er þeir fréttu af þessari áskorun.

Rófusúpa

3 meðalstórar rófur
2 gulrætur
2 laukar
3 væn hvítlauksrif
ögn af paprikudufti, karríi og broddkúmeni
1 tsk. tómatkraftur
1 msk. smjör
skvetta Worcestershire-sósa
sjávarsalt frá Norður salti
engiferrót
2 tsk. grænmetiskraftur

Rófurnar eru skrældar og velt upp úr góðri olíu og salti og soðnar ásamt gulrótunum.
Smjörið brætt, lauk, hvítlauk, engiferi, kryddi og tómatkrafti bætt út í og hrært hraustlega í pottinum svo að ekki brenni við.
Þegar þetta ilmar mátulega er vatni bætt við svo að yfir fljóti og látið malla.
Rófur og gulrætur settar í pottinn með lauknum og kryddinu og allt maukað saman og smakkað til með Worcestershire-sósu.
Ef til vill þarf að þynna súpuna með grænmetissoði en hún á þó að vera þykk.
Súpan er svo borin fram með þeyttum rjóma eða sýrðum, saxaðri steinselju, chili-pipar og  hvannarfræjum.

Grænkálspestó

200 g grænkál
2 – 3 hvítlauksgeirar
100 g ristaðar furuhnetur
Parmigano eftir smekk
Safi úr 1/2 sítrónu
100 ólifu olía

Allt sett saman í blandara og maukað vel saman
Einnig getur verið skemmtilegt að sleppa ostinum og bæta við fleirri kryddum í staðinn td. Piparrót, ferskur jalapeno, engifer eða annað sem hugmyndarflugið hefur uppá að bjóða nú eða skessujurt.

Blómkáls mauk

Blómkál soðið i mjólk og rjóma, hlutföll fara eftir efnahag og smekk hvers og eins.
Maukað í blender en passa að nota bara þann vökva sem þarf
Kryddað til með salti og smá af ferskum sítrónusafa
Þessu mauki er svo ausið  ofan í taco-skeljar jafnóðum og etið er.

Svo til að toppa þetta þá steikjum við grænkál, hreinsum það af stilknum steikjum í mikilli og vel heitri olíu eða djúpsteikjum í nokkrar sek. Setjum á pappír til þerris og söltum.  Þetta má nota sem hluta af meðlætinu eða með fordrykknum eða bara sem snakk með myndinni.

Svo má taka stórt grænkál, hreinsa stilkinn frá og nota sem vefju, blómkálsmaukið sem sósu, hnetur og einhvern góðan ost, geitaost, camembert eða annað sem okkur líkar.

Ekta frönsk lauksúpa með skessujurt

12 laukar
5 lítrar vatn
2 kjúkligateningar
2 nautateningar
Nokkrir kvistar blóðberg eða timian
3 stilkar skessujurt
2 lárberjalauf   ( lárviðarlauf )
Svartur pipar
Ólívuolía
Vínskvetta
Brauð
Ísbúi eða Gruyere ostur

Skerið lauk í tvennt eftir endilöngu og í 5mm sneiðar.
Laukurinn brúnaður heillengi og pipraður. Eða þartil hann er orðinn gullinbrúnn og sætilmandi.
Einhverju víni skvett yfir og látið sjóða niður.
5 lítrar af vatni, súputeningar, blóðberg, lárberjalauf og kramdir stilkar skessujurtarinnar ofan í pottinn.
Soðið í 10 minútur eða svo.
Í lokin fara skessujurtarlaufin söxuð ofan í.
Brauð með fullt af góðum osti ristað í ofni og sett í skálarbotn.
Súpunni ausið yfir.

Ég vil skora á söngbróður minn og vin Sigurð Sæmundsson í Hveragerði að koma með eitthvað sniðugt í næsta blað.

Nýjar fréttir