Í desember 2020 var gerður frumsamningur við ábúendur Skollagrófar og eftir fund með hreppnum í ársbyrjun 2021 hófst vinnan við aðalskipulagsbreytingu í landi Skollagrófar.
Í maí sl. voru aðalskipulagsbreytingar komnar í gegn og í kjölfarið var sótt um framkvæmdaleyfi til efnistöku en það ferli gekk bæði fljótt og vel.
Í millitíðinni, á meðan beðið var eftir skipulagsbreytingum, gafst ágætis tími til þess að senda efnisprufur úr námunni í ýmiskonar prófanir og er skemmst frá því að segja að efnið í Grófarnámu uppfyllir öll skilyrði sem gerð eru til steypuframleiðslu og vegagerðar.
Það var því með mikilli gleði sem stofnendur Grófarnámu undirrituðu samning við landeigendur Skollagrófar í ágúst sl. þess efnis að vinna efni á svæðnu.
Um þessar mundir er unnið að góðri aðstöðu en búið er að opna formlega og er fyrst um sinn helst hægt að fá skrautperlu og sand. Fyrir frekari upplýsingar er hægt er að hafa samband við Kristbjörn (Bubba) í s. 899 0816, Bjarna Sverris s. 864 2499 eða Margréti s. 699 4001.