-0.5 C
Selfoss

Hátt í 250 börn og unglingar léku á stórtónleikum í Iðu

Vinsælast

Um síðustu helgi var haldið Strengjamót á Selfossi þar sem strokhljóðfæranemendum af öllu landinu var boðið að taka þátt. Allt að 250 börn og unglingar frá aldrinum 7 – 17 ára mættu og skipuðu fjórar stórar hljómsveitir eftir því hvar þau eru stödd í náminu; gula sveit fyrir byrjendur, svo rauða og græna, en bláa sveitin er fyrir þau sem lengst eru komin í tónlistarnáminu. Stjórnendur sveitanna voru Örnólfur Kristjánsson, Kristján Matthíasson, María Weiss og Guðmundur Óli Gunnarsson og kynnir á tónleikunum var Magnea Gunnarsdóttir.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að það tókst að halda mótið í ár í 3. tilhlaupi því að það stóð til að hafa strengjamótið á Selfossi haustið 2020, en Covid 19 tókst að fresta því um tvö ár. Skipuleggjendur fengu skrekk þegar kom í ljós að veðurspáin fyrir sunnudaginn var mjög slæm, bæði á Hellisheiðinni og alls ekki ferðafært til baka fyrir þátttakendur frá Norðurlandi. Því var mótinu flýtt og klárað um kvöldmatarleitið á laugardag. Tónleikarnir tókust einstaklega vel. Eftir þá var boðið upp á pizzu og diskó og krakkarnir fór alsælir heim. Innlilegar þakkir frá skipuleggjendum mótsins til þeirra sem ljáðu Strengjamótinu lið með húsnæði. Næsta strengjamót verður haldið að ári á Akureyri,“ segir Guðmundur Pálsson, tónlistarkennari og skipuleggjandi mótsins.

Nýjar fréttir