-7 C
Selfoss

Næsti fasi framkvæmda í miðbænum kynntur fyrir íbúum

Vinsælast

Boðað hefur verið til opins íbúafundar á Selfossi í tilefni kynningar á næsta áfanga miðbæjarins sem hefur gengist undir miklar breytingar frá því hann var fyrst kynntur.

“Við höfum lært mikið á þessu fyrsta ári í nýja miðbænum og höfum gert ákveðnar breytingar á öðrum áfanga sem kalla á deiliskipulagsbreytingu. Nú eru þessar breytingar að fara í ferli og þess vegna er boðað til íbúafundar,“ segir Leó Árnason, stjórnarformaður Sigtún Þróunarfélags í samtali við Dagskrána.

Sigtún, sem stendur að uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi, hefur boðað til fundarins á fimmtudagskvöld, 13. október kl. 19:30, þar sem farið verður yfir næstu skref í uppbyggingu miðbæjarins.

“Við Sigurður Einarsson arkitekt munum fara yfir stöðuna og horfa fram á veginn með tilliti til skipulagsmála. Fyrri áfanginn hefur fengið frábærar viðtökur og breytt ýmsu um það hvernig við sjáum seinni áfangann fyrir okkur. Við sjáum ný tækifæri og höfum undanfarna mánuði unnið að þróun og hönnun í samræmi við það. Ég hlakka mikið til að spjalla milliliðalaust við bæjarbúa og frumsýna myndir af næsta áfanga miðbæjarins,“ segir Leó.

Íbúafundurinn verður haldinn á Sviðinu, sem er nýji viðburða- og tónleikasalurinn við Brúartorg í miðbænum.

Nýjar fréttir