-3.6 C
Selfoss

Viljayfirlýsing um fagháskólanám í leikskólafræðum undirrituð

Vinsælast

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirrituðu í gærsamstarfsyfirlýsingu um þróun og innleiðingu fagháskólanáms í leikskólafræðum á landsvísu. Auk ráðuneytanna koma Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Samband íslenskra sveitarfélaga að yfirlýsingunni, en markmið hennar er að efla menntun starfsfólks leikskóla um land allt.

Verkefninu er ætlað að gera starfsfólki leikskóla sem ekki hefur lokið stúdentsprófi kleift að sækja fagháskólanám sem er að fullu metið inn í fimm ára leikskólakennaranám. Háskóli Íslands þróar og skipuleggur fagháskólanám í leikskólafræðum og mun Menntavísindasvið skólans bera ábyrgð á framkvæmd verkefnisins. Nemendum stendur til boða að fá stuðning við ástund námsins frá starfsfólki háskólans, fræðslustofnunum í heimabyggð og viðkomandi sveitarfélagi. Verkefnið er þarft enda vantar um 1.500 leikskólakennara til starfa á Íslandi, en hér á landi er lægsta hlutfall menntaðra leikskólakennara meðal OECD-ríkja.

„Með náminu fjölgum við þeim sem hafa menntun til kennslu og styrkjum þar með starfsemi leikskóla, í samræmi við áherslur menntastefnu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Öflugt fyrsta skólastig er veganesti barnanna inn á síðari skólastig. Á sterkum grunni byggjum við sterka einstaklinga.“

Nám samhliða starfi í leikskólum

Verkefnið um fagháskólanám í leikskólafræðum hófst formlega árið 2018 með samvinnu Menntavísindasviðs HÍ, Háskólafélags Suðurlands, Félags leikskólakennara, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og fleiri hagaðila sem hluti af átaki stjórnvalda til að efla tengsl háskóla og atvinnulífs. Þann vetur var boðið upp á námið fyrir starfsfólk leikskóla á Suðurlandi og síðar tóku Menntavísindasvið HÍ og Keilir saman höndum um að bjóða upp á námið bæði á Suðurnesjum og Suðurlandi. Nú hafa tveir hópar lokið náminu, einn í Árborg og annar á Suðurnesjum, með góðum árangri.

Námið er byggt upp með það að leiðarljósi að nemendur geti sinnt því samhliða starfi sínu í leikskólum. Þannig geta nemendur lokið 60 einingum á tveimur árum sem eru að fullu metnar ef sótt er um í bakkalárnám í leikskólakennarafræði að fagháskólanámi loknu. Meginatriði er að nemendur stundi sem svarar hálfu námi meðfram starfi og fái sérstakan stuðning við að stunda námið frá starfsfólki skólans.

Áætlað er að skráning í námið hefjist vorið 2023 og að síðan verði nýir hópar teknir inn annað hvert ár. Stefnt er að því að árið 2025 brautskráist allt að 100 nemendur, sem flestir myndu halda áfram í leikskólakennaranámi að fagháskólanámi loknu.

Nýjar fréttir