-6 C
Selfoss

Guitar Islancio í Hlöðueldhúsinu

Vinsælast

Guitar Islancio, skipað gítarleikurunum Birni Thoroddsen og Þórði
Árnasyni og Jóni Rafnssyni á bassa, leikur í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ fimmtudaginn 13. október og hefjast tónleikarnir kl.20.00.
Tónleikadagskrá tríósins er skemmtileg blanda af frumsömdu efni, íslenskum þjóðlögum, sígildum jazzlögum og þekktum popp- og rokklögum og stemming á tónleikum mikil, enda tróið rómað fyrir kraftmikla og líflega spilamennsku og ber því nafn með rentu, en orðið islancio er úr ítölsku tónlistarmáli og þýðir ákafi eða ofsi.

Guitar Islancio hefur starfað frá árinu 1998 og fagnar því 25 ára starfsafmæli á næsta ári og hefst afmælisárið með tónleikum í Kaldalóni í Hörpu þann 16. febrúar og verða þar með þeim góðir gestir, íslenskir og erlendir. Þessir tónleikar verða kynntir frekar þegar nær dregur.

Guitar Islancio hefur notið mikilla vinsælda á þessum tæpu 25 árum og haldið fjölda tónleika og komið fram á tónlistarhátíðum bæði hér heima og erlendis og hafa fjölmargir þekktir tónlistarmenn komið fram með þeim. Tríóið hefur gefið út fimm geisladiska og árið 2017 kom út safndiskurinn “Þjóðlög” sem inniheldur 14 þjóðlög af fyrri diskum tríósins auk lagsins “Á Sprengisandi” eftir Sigvalda Kaldalóns, sem hafði ekki komið út með þeim áður. Árið 2019 gáfu þeir út nótnabókina “Íslensk þjóðlög í útsetningum Guitar Islancio” og inniheldur hún 22 lög á nótum og með hljómum fyrir gítar og píanó auk ýmiss fróðleiks um lögin. Allur texti í bókinni er á íslensku, ensku og þýsku. 12 laga vinylplata, sem einnig ber nafnið “Þjóðlög” kom út í byrjun þessa árs og eins og á geisladisknum, eru þar þjóðlög af fyrri diskum. Tríóið hefur verið að vinna að nýju efni, sem samansetndur af þekktum íslenskum lögum og er áætluð útgáfa á því á næsta ári.

Í dag skipa Guitar Islancio þeir Björn Thoroddsen, Jón Rafnsson og Þórður Árnason, gítarleikari, sem gekk til liðs við tríóið í lok árs 2021.

Tónleikarnir hefjast kl.20.00 og eru miðar seldir við innganginn.

Nýjar fréttir