Lárus Helgi Helgason er Sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.
Takk fyrir tilnefninguna Inga mín.
Gallinn við þessa tilnefningu er reyndar sá að ég kann eiginlega engar uppskriftir en hef vissulega gaman af því að sulla þessu og hinu saman, stundum með góðum árangri.
Hvað segja kokkaranir, hnífsodd af þessu og dass af hinu? Svo má ekki gleyma klípu.
En ég hef mest gaman af því að prófa mig áfram með villibráð og núna er skotveiðitímabilið í hámarki svo ég ætla að reyna setja eithvað saman fyrir ykkur.
Grafin gæsabringa
4 gæsabringur
2 msk. sinnepsfræ
2 msk. basilíka
1 msk. oregano
2 msk.timian
2 msk.rósmarin
1 msk. salt
2 msk. sykur
2 msk. dill
2 msk. mulinn rósapipar
Vel af grófu salti
Hreinsa bringurnar vel og setja í eldfast mót sem þið botnfyllið af grófu salti.
Raðið bringunum á saltið og þekjið þær svo vel með meira salti og setjið í ísskáp í tvo tíma. Því næst eru þær skolaðar vel með vatni og þerraðar. Kryddunum er blandað saman í skál og bringunum velt upp úr blöndunni. Því næst er bringunum pakkað vandlega inn í plastfilmu og þær svo geymdar í ísskáp í tvo daga.
Best er að taka smá af kryddinu af áður en þær eru skornar í mjög þunnar sneiðar.
Gott að bera fram með kexi, osti og berjasultu eða piparrótarsósu.
Hreindýrabollur í villisveppasósu
1 kg hreindýrahakk
1 laukur, saxaður
1 bolli skarlottulaukur, fínsaxaður
1 hvítmygluost, ég nota oft camenbert
1 bréf beikon, skorið í litla bita
2 egg
1 pakka beikonkex
Salt og pipar og villibráðakrydd, bara dass
Blandið öllu saman og gerið frekar litlar bollur, kannski um 3 cm í þvermál.
Steikið þær á pönnu upp úr smjöri og brúnið vel, setjið svo í eldfast mót og inn í ofn í 15 mín. á 180 gráðu hita.
Þá er það sósan
1 pakki Flúðasveppir
hálfur poki þurrkaðir villisveppir
Slatti af smjöri
Villibráðakraftur
Vatn
Sósujafnari
Rifsberjasulta
Koníak
½ ltr rjómi
Salt og pipar
Takið villisveppina, setjið í skál og skolið aðeins upp úr köldu vatni, hellið þar næst öllu vatninu af áður en þið hellið góðum slurk af koníaki yfir sveppina svo þeir séu vel baðaðir og látið standa í klukkustund.
Þá er einmitt smá tími líka til að smakka koníakið, það þarf alltaf að sjá hvort það sé ekki alveg í lagi.
Skerið Flúðasveppina niður í frekar þykka bita og setjið á pönnu með miklu smjöri.
Skerið villisveppina smátt og setjið með hinum á pönnuna.
Þegar sveppirnir eru orðnir vel brúnaðir má fara svolítið af koníakinu sem var á sveppunum á pönnuna.
Því næst dass af villibráðakrafti og smá vatn, eins og einn bolla. Ég nota líka stundum hálfan tening af nautakrafti með. Þar á eftir fer hálfur líter af rjóma, salt og pipar og smakkað til, þykkja með sósujafnara.
Svo er gott að setja smá rifsberjasultu út í sósuna, eftir smekk og mér finnst alltaf koma best út að hella smá sósulit útí.
Þegar sósan er til þá set eg bollurnar útí og leyfi þessu að malla smá.
Með þessu finnst mér best að hafa soðnar kartöflur, rauðkál, sultu og Ora grænar. Það bara getur ekki klikkað.
Eftirmatur á sjaldan við því eftir þessi herlegheit eru yfirleitt allir að springa úr seddu, en er þá ekki bara gott að fá sér einn
Espresso martini?
Einn hluti stert kaffi
Einn hluti vodki
Einn hluti espresso kaffilíkjör
Sett í hristara með klaka og hrist
Ég vil að lokum tilnefna vin minn Inga Þór Jónsson, sem stundum er kallaður tenórinn í eldhúsinu, sem næsta matgæðing vikunar. Hann verður ekki í vandræðum með koma með einhverrjar kræsingar.