Í síðustu viku var gestum og gangandi boðið að líta inn í Móberg, glæsilegt nýtt fimm deilda hjúkrunarheimili á Selfossi, sem áætlað er að muni opna dyr sínar fyrir nýjum íbúum þann 10. október nk. Í heild geta sextíu íbúar dvalist í jafn mörgum íbúðum Móbergs.
Aðkoman að Móbergi er sannarlega glæsileg, húsið er á tveimur hæðum og er byggt í hring. Á sameiginlegum svæðum er bjart og vítt til veggja og af sameiginlegum svölum og út um glugga vesturhliðar hússins er stórbrotið útsýni yfir Ingólfsfjall og Ölfusá, en fallegt og skjólgott útisvæði er inni í hringnum. Herbergin eru öll 25 fermetrar að stærð og eru vel útbúin fyrir umönnun.
Móbergs hefur verið beðið um hríð, en áform um bygginguna hófust árið 2015 og fyrsta skóflustungan var tekin í nóvemberlok árið 2019. Urban arkitektar ehf. og LOOP architects sáu um hönnun hússins en Eykt hefur séð um framkvæmdina.