-8.9 C
Selfoss

Ekki lengur útskúfuð úr samfélaginu okkar

Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá því að nýtt enskumælandi ráð hefði fundað í fyrsta sinn í sveitarfélaginu. Formaður ráðsins segir að nú sé kominn vettvangur fyrir erlenda íbúa sveitarfélagsins til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum áfram, en um 50 prósent íbúa svæðisins eru af erlendu bergi brotnir.

„Fyrir kosningarnar í ár var mikið rætt um að útlendingar í samfélaginu væru smá útskúfaðir úr pólitíkinni hérna í Vík. Þannig að við lögðum til að enskumælandi ráð væri stofnað fyrir okkur til þess að koma meira að samfélaginu og í dag var fyrsti fundurinn haldinn,“ segir Tomasz Chocholowicz, formaður nefndarinnar eftir fundinn.

Samkvæmt Tomaszi er ráðið skipað fólki af ýmsum þjóðernum. Sjálfur er Tomasz frá Póllandi en meðal annars er fólk frá Spáni, Þýskalandi, Slóvakíu og Filippseyjum innan ráðsins.

„Núna líður okkur ekki eins og við séum útskúfuð úr samfélaginu okkar. Það mætti segja að þessi nefnd sé brú á milli erlendra og innlendra íbúa í Vík,“ segir Tomasz.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps og starfsmaður ráðsins sagðist í samtali við Fréttablaðið vera í skýjunum með fundinn og taldi hann að það hefði ríkt almenn ánægja hjá öllum sem fundinn sátu. „Mér fannst mikilvægt að þessi hópur fengi rödd og fengi meira um hlutina að segja, sem er mjög eðlileg krafa og hollt fyrir okkur ef við ætlum að hafa sjálfbært samfélag hérna á Vík. Þá þýðir ekki að einn hópur sé hálf afskiptur,“ segir Einar að lokum.

Fleiri myndbönd