-2.2 C
Selfoss

Lögreglan lýsir yfir hættustigi vegna óveðurs

Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur lýst yfir hættustigivegna yfirvofandi óveðurs á morgun.

Svo segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi: „Okkar verðmætu samstarfsmenn á Veðurstofunni rýna nú í veðurspá næsta sólarhringsins.  Búið er að boða rauða viðvörun vegna fyrirsjáanlegs óveðurs á Austfjörðum á morgun og  appelsínugul viðvörun er fyrir Suðausturland.  Vegagerðinboðar að búast megi við lokun vega frá Kirkjubæjarklaustri og austur um frá því snemma í fyrramálið allt þar til veðrinu slotar,  mögulega ekki fyrr en á aðfaranótt mánudags.  Veðurfræðingar hafa varað við því að í verstu útkomu gæti komið til þess að færa þurfi viðbúnaðarstigið á rautt fyrir Suðausturland um tíma á morgun.“

Í stuttu máli er þetta þannig:

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðausturland frá því klukkan 06:00 í fyrramálið og fram til klukkan 03:00 á aðfaranótt mánudags.  Norðvestan 20-28 m/s með vindhviður staðbundið yfir 40 m/s. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni. Ekkert ferðaveður.

Gul viðvörun er fyrir vesturhluta Suðurlands frá því kl. 10:00 á morgun til klukkan 21:00.  Norðvestan 18-23 m/s undir Eyjafjöllum og vindhviður yfir 30 m/s. Varasamt að vera á ferðinni á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum.

Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með veðurspám, ferðaþjónustuaðila til að upplýsa ferðamenn um veðurspár og á Suðausturlandi er eins og áður sagði ekkert ferðaveður.

Aðgerðastjórn verður mönnuð á skrifstofu lögreglustjóra ef farið verður yfir á rautt í umdæminu.

Fleiri myndbönd