Það var hátíð haldin í Tré og List í Forsæti í Flóahreppi miðvikudaginn 7. sept. sl. Forseti Íslands Guðni TH Jóhannesson var kominn í heimsókn til að heiðra Sigríði Jónu Kristjánsdóttur eða Siggu á Grund og kynnast list hennar. En Sigga hefur þróað listagáfu sína í yfir sjötíu ár.
Það voru frostrósir á glugga í Villingaholti sem fyrst fönguðu hug hennar svo var hún farin að fylgja föður sínum í vinnustofu hans barnung og skera út tólf ára gömul. Velgjörðarmaður hennar var baukasmiðurinn góði Jón Gunnarsson á Grund.
Guðmundur Oddur Kristjánsson eða Goddur Lista-prófessor fór yfir listasögu Siggu í upphafi heimsóknar forsetans og sagði frá því að hann væri að vinna að bók um Listasögu Siggu. Ólafur Sigurjónsson trésmiður og listamaður í Forsæti spilaði fallegan sálm á orgelið fræga úr Landakirkju í Vestmannaeyjum. Guðni Ágústsson setti hátíðina og bauð gesti velkomna fyrir hönd Siggu frænku sinnar. Hulda Kristjánsdóttir nýr sveitarstjóri í Flóahreppi ávarpaði og færði þeim Siggu og Ólafi blóm við þetta einstaka tækifæri. Forsetinn gekk síðan um safnið með Siggu og dásamaði verk hennar.
Ólafur Sigurjónsson fór yfir verk sín og foreldra sinna. Forsetinn sagði í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir. „Svo var ég leystur út með góðri gjöf, spónum sem Sigga hafði gert af sínum hagleik, merktum mér og Elízu. Maður segir eins og í gömlum sögum, mikils met ég gjafir þínar en meir þó vináttuna“.