Þrír einstaklingar undir tvítugu eru grunaðir um að hafa staðið á bak við sprengingar af völdum heimatilbúinna sprengja sem hafa víða valdið usla á Selfossi í septembermánuði, að því er fram kom á vef mbl.is í gær.
Síðastliðinn fimmtudagsmorgun fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um tortryggilegan hlut sem drengir hefðu verið að vasast með við gatnamót Tryggvagötu og Engjavegs á Selfossi. Við athugun lögreglu reyndist hluturinn vera heimatilbúin flöskupsrengja og því var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til með búnað til að leysa verkefnið. Sérsveitarmenn eyddu sprengjunni og á meðan var svæði í um 100 metra radíus umhverfis vettvanginn lokað. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi var málið upplýst samdægurs.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi sagði í samtali við mbl.is að hann vonaði að þessu tímabili væri lokið. Vitað væri hverjir gerendurnir væru, þeir væru allir undir tvítugu, hefðu séð alvarleikann sem fælist í þessu og kæmu ekki til með að fara í gæsluvarðhald.