Forsætisráðherra var boðið til athafnar í skóginum á Kirkjubæjarklaustri í vikunni þar sem hæsta tré landsins var útnefnt tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands. Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar, leiðbeindi Katrínu við þríhyrningsmælingu á trénu sem er sitkagreni gróðursett af fjölskyldunni á Klaustri árið 1949 og reyndist það vera 30,15 metrar á hæð. Mælingu Katrínar var bætt við röð mælinga sem Björn hafði þegar gert á trénu til að fá sem nákvæmasta tölu. Niðurstaðan er sú að fyrsta tréð hefur nú náð þrjátíu metra hæð á Íslandi frá því fyrir ísöld þegar hér uxu stórvaxnar trjátegundir sem náð gátu margra tuga metra hæð.
Í ávarpi sem Katrín flutti við tréð á Klaustri talaði hún um mikilvægi skóga og skógræktar. Hún nefndi nýsamþykkta landsáætlun um landgræðslu og skógrækt, Land og líf, og þann mikilvæga þátt sem áætlunin væri í markmiðum Íslendinga í loftslagsmálum. Þar fyrir utan ætti hún sjálf kærar minningar frá þessum stað frá því þegar hún sýndi tilvonandi manni sínum skóginn snemma í sambandi þeirra.
Um áttatíu voru viðstödd athöfnina, heimafólk og fulltrúar eigenda skógarins, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands. Auk forsætisráðherra fluttu ávörp Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Hafberg Þórisson í Lambhaga sem var bakhjarl viðburðarins.