-11.4 C
Selfoss

Um 50 tegundum verið plantað í Hellisskóg

Vinsælast

Skógræktarfélag Selfoss varð 70 ára fyrr á þessu ári. Félagið var stofnað á fundi í Tryggvaskála 16. maí 1952 og varð strax deild innan Skógræktarfélags Árnesinga. Tilgangur félagsins var skv. 2. grein félagslaga „að efla trjárækt innan bæjarins og planta skógi á ræktunarsvæðum Selfossbæjar og Skógræktarfélags Árnesinga”. Skógræktarfélag Selfoss hefur unnið óslitið að þessum markmiðum undarfarin 70 ár og plantað í reiti á Selfossi og á Snæfoksstöðum, skógræktarjarðar í Grímsnesi í eigu Skógræktarfélags Árnesinga. Þá hefur félagið lagt áherslu á að veita félagsmönnum fræðslu um skóg- og trjárækt með fyrirlestrum, myndasýningum, leiðbeiningum og ferðum innan héraðs og utan.

Á þessum sjötíu árum hafa félagsmenn plantað í þrjú svæði. Fyrstu 18 árin var gróðursett í „Rauðholtsgirðinguna” á Selfossi (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Ræktunin þar gekk á köflum brösuglega og tíðir gróðureldar og ágangur búfénaðar varð til þess að félagið hætti að gróðursetja í það svæði. Eftir standa þó nokkur myndarleg grenitré og birkiræklur sem sluppu við eldana en hluti svæðisins hefur nú verið tekin undir aðra starfsemi.

Rauðholtsskógurinn í september 2022. Mynd: Örn Óskarsson.

Á árunum 1970-1984 var gróðursett í reit Skógræktarfélags Selfoss á Snæfoksstöðum í Grímsnesi í girðingu sem Skógræktarfélags Árnesinga á og rekur. Þar var einkum plantað stafafuru sem hefur vaxið vel og myndar nú fallegan skóg. Frá árinu 1986 hefur Skógræktarfélag Selfoss eingöngu plantað í Hellisskóg við Selfoss. Árið 1985 var gerður samningur við Selfossbæ um friðun og ræktun á 54 hekturum lands upp með Ölfusá norðan megin árinnar, í svokallaðri Hellismýri. Árið 1994 var svæðið stækkað um 72 hektara. Samtals er starfssvæðið í Hellisskógi því orðið 126 hektarar. Svæðið var strax nefnt Hellisskógur þó ekki væri neinn skógurinn. Landið var þá mjög illa farið eftir langvarandi ofbeit hrossa og sauðfjár. Mýrlendið var víða gróðurlítið, útsparkað drullusvað og í holtunum voru stór rofaborð og hvergi tré.

Plöntun hófst vorið 1986, en þá var plantað 2000 víðiplöntum í skjólbelti rétt innan við aðalinnganginn neðst á svæðinu. Árlega hefur verið plantað 1000- 50000 trjám í svæðið. Nú hefur nokkur hundruð þúsund trjám af rúmlega 50 tegundum verið plantað í Hellisskóg. Vöxtur og viðgangur trjágróðurs í Hellisskógi hefur verið framar vonum og á stóru svæði er nú að vaxa upp skógur sem er farinn að standa undir nafni.

Frá upphafi framkvæmda í Hellisskógi hafa sjálfboðaliðar á vegum skógræktarfélagsins árlega unnið 2-8 kvöld við plöntun og önnur störf. Nokkur félagasamtök og klúbbar hafa einnig komið og plantað. Eitt af þessum félögum er Lionsklúbbur Selfoss sem fékk úthlutað svæði til ræktunar og byggt það upp á myndarlegan hátt. Hópar frá grunnskólum hafa plantað birkitrjám og vinnuflokkar frá vinnuskólanum á Selfossi hafa unnið í Hellisskógi í mörg ár. Lagðir hafa verið akvegir og göngustígar um hluta svæðisins. Í sumar voru þrjár gönguleiðir litamerktar og gönguleiðakort verða vonandi sett upp bráðlega. Settir hafa verið upp bekkir og borð við göngustíga, þannig að upplagt er fyrir fólk að ganga um svæðið og setjast niður með nesti og njóta útiveru í ört vaxandi útivistarskógi. Vegir og stígar í Hellisskógi eru nú um 8 km að lengd. Einnig hafa verið sett upp hreyfitæki fyrir almenning í skóginum til að auka enn frekar notkunarmöguleika á svæðinu. Hellirinn hefur verið grafinn út og útbúinn þannig að fólk geti sest niður inni í honum. Á komandi árum er stefnt að áframhaldandi plöntun og markvissri aukningu í stígagerð til að auka enn útivistarmöguleika svæðisins. Talsverður fjöldi gesta heimsækir Hellisskóg dag hvern og er svæðið orðið er eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga rétt eins og stefnt var að í upphafi.
Framkvæmdir í Hellisskógi hafa verið fjármagnaðar með félagsgjöldum, gjafafé frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum auk árlegra styrkveitinga frá Sveitarfélaginu Árborg. Einn helsti stuðningsmaður félagsins var Júlíus Steingrímsson, Júlíus var mikill áhugamaður um trjárækt og ánafnaði félaginu stóran hluta af eigum sínum, en Júlíus lést árið 2003. Minnisvarði um þennan velgjörðarmann hefur verið reistur í Hellisskógi. Minnisvarðinn er steinlistaverk er nefnist „Hornsteinn og aðrir steinar á og við horn“ og var hannaður og reistur af Þór Sigmundssyni steinsmið. Í Hellisskógi er að vaxa upp myndarlegt trjásafn sem er kostað af gjafafé Júlíusar.

Vinnusvæði Skógræktarfélags Selfoss síðustu 36 árin. Mynd: Örn Óskarsson.

Sigling út í Laugardælaeyju 17. sept nk.

Í tilefni afmælisins ætlar félagið að bjóða upp á ferð í Neðri Laugadælaeyju laugardaginn 17. september næstkomandi ef veður leyfir. Bátasveit Björgunarfélags Árborgar mun sjá um að ferja gesti út í eyju og allir eru velkomnir. Ferðir verða í boði kl. 10 – 12 og er siglt frá Árvegi rétt neðan við Björgunarmiðstöðina. Æskilegt er að gestir séu í stígvélum eða vatnsheldum skóm.

Í Neðri Laugardælaeyju vaxa tvö silfurreynitré sem vert er að skoða. Þau eru meðal elstu trjáa á Íslandi. Um 1890 gróðursetti Guðmundur Guðmundsson héraðslæknir í Laugardælum silfurreynitrén í Fremri Laugardælaeyju í Ölfusá við Selfoss. Trén eru mikil um sig og virðast vera vel lifandi þrátt fyrir háan aldur. Silfurreynir getur orðið 400 ára. Úr eyjunni er gott útsýni yfir í Hellisskóg.

Hellisskógur er góður minnisvarði um starf félagsins síðustu 36 árin og þar hefur vel tekist til. Þó svo félagið eldist og aðstæður í þjóðfélaginu hafi breyst þá hefur starf Skógræktarfélags Selfoss haldið áfram og mun vonandi eflast enn frekar næstu áratugi.

Heimasíða Skógræktarfélags Selfoss er www.hellisskogur.is og félagið er einnig á Facebook.
Félagsmenn eru nú um 140 og mikil þörf er fyrir nýliða í félagið. Á heimasíðunni eru upplýsingar um nýskráningu í félagið.

Núverandi stjórn skipa: Örn Óskarsson, formaður, Snorri Sigurfinnsson, Hermann Ólafsson, Björgvin Eggertsson og Hlíf Böðvarsdóttir.

Nýjar fréttir