3.9 C
Selfoss

Hernaður Skógræktarinnar gegn náttúru Íslands

Með vaxandi umsvifum Skógræktarinnar virðist hafa losnað um ýmsar hömlur í vinnubrögðum og stórvirkum tækjum óspart beitt til að brjóta viðkvæmt land til gróðursetningar. Hvert óhæfuverkið á eftir öðru er að koma í ljós. Þessi hernaður gegn landinu er að mestu kostaður af almannafé, en einnig fyrirtækjum og einstaklingum innan lands sem utan. Kolefnisjöfnun er þar megindrifkraftur en umhverfisvernd ekki í hávegum höfð.

Forkastanleg vinnubrögð

Landspjöll vegna  meintra ólöglegra framkvæmda við skógrækt í Skorradal eru gott dæmi um vinnubrögðin. Slóði var lagður inn á viðkvæmt land í 300-370 m hæð án þess að framkvæmdaleyfi væri til staðar. Mólendi, mýrar og flói síðan rist í sundur til að auðvelda gróðursetningu og auka lifun ungplantna. Jarðvinnslan ræsir fram votlendið og hætt er við vatnsrofi þar sem landi hallar. Planta átti aðallega birki en viðkomandi sveitarfélag mótmælti yfirgangi Skógræktarinnar.

Erlendir aðilar kostuðu þessi landspjöll, en þeim hafði verið talin trú um að trén sem planta átti myndu binda mikið kolefni. Raskið verður hins vegar til þess að kolefni berst út í andrúmsloftið vegna rotnunar lífræns efnis í gróðri og jarðvegi, en kolefnisbinding færi afar hægt af stað. Verkefnið hefði því skilað litlu til kolefnisjöfnunar næstu árin.

Rangárvellir

Á Rangárvöllum hafa merkileg gróðurlendi verið grædd upp og dafnað á þeim 115 árum sem liðin eru frá því baráttan við sandfok, uppblástur og eyðingu byggða hófst þar. Þarna var komið mólendi, góð berjalönd og mikilvægir varpstaðir mófugla, en fyrir svæðinu lá að breytast smá saman í kjarrlendi með birki og víði.

Í sumar réðist Skógræktin til atlögu við þá undirstöðu fyrir endurheimt vistkerfa sem búið var að kosta miklu til að skapa á löngum tíma. Rifin voru svöðusár í landið með stórvirkum tækjum.  Viðkvæm jörð er undir og því er hætta á víxlverkun vatnsrofs og sandfoks og uppblásturs.

Hvað í ósköpunum gengur þeim til, sem framkvæma þennan hernað gegn landinu? Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur verið plantað þarna stafafuru sem mun í kjölfarið sá sér víða um nágrennið og leggja undir sig þau gróðurlendi sem fyrir eru. Sér í lagi er ámælisvert að ekki hefur verið óskað eftir framkvæmdaleyfi frá hlutaðeigandi sveitarfélagi eins og skylt er þegar um er að ræða svo umfangsmikla breytingu á ásýnd landsins.

Gróðursetja átti ösp í þetta votlendi sem er í meira en 300 m hæð. Mynd: Sigurður H. Magnússon.

Munaðarlaus náttúruvernd

Það hefur enginn gefið Skógræktinni umboð til þess að umbreyta náttúru Íslands með þeim afgerandi hætti sem raun ber vitni. Við skorum á sveitarstjórnir að vera vel á verði gagnvart slíkum framkvæmdum og stöðva þær tafarlaust ef ekki hefur verið fylgt lögum og reglum.

Þessi umhverfisógn stafar meðal annars af veikum lagaramma og hve óljóst það er hver fer með vernd vistkerfa, landslags og líffræðilegrar fjölbreytni utan friðlýstra svæða, eða á um 80% landsins. Við skorum á ráðherra umhverfismála að bæta þar úr og ráðherra matvæla að setja Skógræktinni eðlilegar skorður í sínum störfum.

Jafnframt viljum við hvetja fólk til þess að standa vörð um náttúru Íslands og þá sérstæðu fegurð sem íslenskt landslag býr yfir.

Sveinn Runólfsson og Andrés Arnalds

Fleiri myndbönd