-7.1 C
Selfoss

Hulin perla í hjarta Selfoss

Ný brú yfir Ölfusá tekur athyglina enda verður tilkoma hennar mikil breyting. En með tilkomu nýrrar brúar opnast perla í hjarta Selfoss. Perla sem gerir okkur kleift að búa til fjölda nýrra tækifæra. Svæðið norðan/ofan við Ölfusárbrú opnast okkur alveg á nýjan hátt.

Þetta er tækifæri sem við eigum að nýta vel og við eigum að vanda okkur. Í dag er nýi miðbærinn, hótelin og Austurvegurinn í austur/vestur skilgreindur sem miðsvæði. Svæði með fjölþætta starfsemi, lífæð samfélagsins. Núna höfum við tækifæri til að endurskilgreina svæðið frá hringtorginu við brúnna alla leið að Biskupstungnabraut sem miðsvæði með fjölþætta starfsemi. Að vegur sem í dag heitir Suðurlandsvegur og er þjóðvegur 1 breytist í „nýjan Austurveg“ þar sem miðsvæði Selfoss teygir sig og stækkar í átt að Ingólfsfjalli.

Með breytingu sem þessari bjóðum við því fólki sem aka mun nýjan þjóðveg 1 í átt að nýrri Ölfusárbrú velkomið beint inn í nýtt og aðlaðandi miðsvæði Selfoss þar sem yrði fjölþætt starfsemi. „Hinn nýi Austurvegur“ myndi þannig leiða fólk áfram inn í miðbæ Selfoss og um Austurveginn. Sá hópur sem ekki á erindi á Selfoss fer þá áfram sinn veg, yfir nýja brú og í austur átt.

Það er spennandi og skemmtilegt að eiga samtal um tækifæri og þau eru mörg við breytingu sem þessa.

Hvernig atvinnustarfsemi hæfir að sé byggð upp þessu nýja svæði. Er þetta svæði fyrir hugverkaiðnað, er þetta svæði fyrir frumkvöðlasetur og slíka starfsemi. Er þetta svæði fyrir háskólatengda starfsemi. Er þetta svæði þar sem listir og menning geta fundið sér áhugaverðan stað. Eru tækifæri í því að þróa ný íbúðarsvæði norðan Ölfusár?

Hvað viljum við, hvað hæfir, hvar eru tækifæri, hvar er þörf. Þetta eru spurningar sem við eigum að spyrja okkur og að spyrja hvort annað. Við þurfum að vita hvað við raunverulega viljum áður en farið er af stað.

Við höfum tækifæri til að opna á að Hellisskógur vaxi með fram Biskupstungnabraut í vestur (í átt að Hveragerði) að mörkum sveitarfélagsins. Að hið einstaka útivistarsvæði sem Hellisskógur er stækki verulega og myndi auk þess fallega umgjörð um þennan hluta Selfoss.

Að því er stefnt að tjaldsvæði færist frá núverandi staðsetningu og yfir á. Með skógrækt og staðsetningu þess við nýtt miðsvæði opnast spennandi tækifæri sem ekki eru til staðar í dag.

Iðnaðarsvæði innan miðsvæðis eru víkjandi og það er í senn spennandi verkefni að finna iðnaði svæði sem hæfir og að þróa gömul iðnaðarsvæði inn í nútíma þarfir.

Byggjum göngu- og hjólabrú yfir Ölfusá, við eigum að geta gengið og hjólað við eðlilegar aðstæður til að sækja vinnu, til að sækja útivist í Hellisskóg og til að geta notið beggja vegna ár.

Hin hulda perla norðan ár er og verður enn frekar með nýrri brú „spari aðkoma“ inn á Selfoss. Byggðarþróunin á þessu svæði mun ráða miklu um rekstrarforsendur ekki aðeins hins nýja miðbæjar heldur einnig þeirrar atvinnustarfsemi sem er við Austurveg.

Með því að skilgreina miðsvæði Selfoss einnig frá Ölfusárbrú og að Biskupstungnabraut erum við að opna á ný tækifæri, á enn fallegri byggð og fjölbreyttari auk þess að fjölga útivisarmöguleikum.

Tækifærið til að auka fjölbreytileika í atvinnulífinu á Selfossi og til að fara nýjar leiðir í atvinnuuppbyggingu er galopið og spennandi á þessu fallega svæði.

Vöndum okkur og nýtum tækifærið.

Guðmundur Ármann Pétursson,
varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Fleiri myndbönd