-1.1 C
Selfoss

Börn gærdagsins eru foreldrar morgundagsins

Vinsælast

Tengslamat; ráðgjöf og rannsóknir opnaði nú í sumar útibú hér á Selfossi með aðstöðu í Bankanum vinnustofu. Tengslamat sérhæfir sig í að greina tengslahegðun barna og fullorðinna og veitir fólki stuðning í að bæta eigin líðan og lífsgæði. Ragnheiður B. Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur er konan á bak við Tengslamat sem upphaflega var einungis starfsrækt í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði. Þar sem aukin eftirspurn var eftir þjónustu á Suðurlandi ákvað Ragnheiður að verða sér út um aðstöðu á Selfossi, þar sem hún sinnir viðtalsmeðferðum og greiningu á tengslahegðun barna og fullorðinna.

Ragnheiður lauk námi í félagsráðgjöf og fjölskyldumeðferðarnámi við Háskóla Íslands en síðastliðin 12 á hefur hún stundað nám í tengslafræðum í Ástralíu, Bretlandi, Ítalíu og í Bandaríkjunum. Samhliða starfi hjá Tengslamat er Ragnheiður í doktorsnámi við Háskóla Íslands þar sem rannsókn hennar er fólgin í að rannsaka tengslahegðun barna á Íslandi. Þá er einnig fyrirhugað að rannsaka afleiðingar vistunar einstaklinga sem vistaðir voru á Vöggustofum Reykjavíkurborgar á árunum 1949-1979.

Þau tengslamatstæki sem Ragnheiður hefur sérhæft sig í miða að því að skima tengslahegðun barna og fullorðina; skima hvort börnum stafi hætta í tengslum við umönnunaraðila, skima óunnin áföll og depurð.

Markhópur Tengslamats eru annarsvegar einstaklingar sem eru að leita eftir betri líðan og vilja bæta tengsl við sína nánustu og hinsvegar börn og fjölskyldur sem búa við einhversskonar hættu í tengslasamböndum.

„Þá er verið að rannsaka hversu hvort börnum stafi hætta í tengslum við sína nánustu umönnunaraðila. Einnig koma einstaklingar til mín sem eru að glíma við vanlíðan, en segja má að grunn tengslamyndun verður til í nánu samspili við frumtengslaaðila okkar“ segir Ragnheiður.

Það eiga ekki öll börn örugga höfn

„Þegar foreldrar sem eignast barn, búa því gott atlæti og ná að lesa í þarfir barnsins í hvívetna, öðlast barnið jafnvægi og greinir umönnunaraðila sína sem örugga höfn ef svo má segja. En þetta foreldrahlutverk er eitt af þeim erfiðustu hlutverkum sem einstaklingar takast á við og stundum geta áföll leitt til þess að foreldrar ná ekki að mæta tengslaþörfum barna sinna. Ástæður geta verið margar og misjafnar“.

Oft getur langur tími liðið uns þessi börn leita sér stuðnings þá sem fullorðnir einstaklingar. Fólk fer að leita skýringa af hverju ákveðin vanlíðan stafar og af hverju þeim takist illa að eiga í nánum tengslum við aðra nákomna. Fólk þyrstir í að koma lífi sínu í betra jafnvægi og langar til að bæta samskipti innan fjölskyldunnar.

„Til að skima tengslahegðun fullorðinna, býð ég upp á fullorðins tengslaviðtöl, þar sem horft er til frumbernskunnar og skimað fyrir óunnum áföllum og depurð. Oft á tíðum má rekja vanlíðan til fyrstu tengsla, það er að segja til foreldra í frumbernsku. Sú vinna getur verið fólgin í að vinna með tvær til þrjár kynslóðir hverju sinni. Sú vinna er bæði árangursrík og skemmtileg“ að mati Ragnheiðar.

„Þá er það líka gefandi þegar foreldrar leita til mín og vilja bæta tengslin við börnin sín, en slík tengslagreining fer fram með myndbandsupptöku sem síðan er greind og notuð til að styðja foreldra í þeirri vinnu.“ Ragnheiður býður einnig upp á tengslaeflandi meðferð fyrir börn og foreldra þar sem áhersla er lögð á að bæta tengsl barna og umönnaraðila en slík vinna felst í að byggja upp traust í tengslasambandi sem er gert í gegnum viðtalsmeðferð, leik og nándarvinnu.

Tengslamat býður einnig upp á ýmiskonar námskeið sem öll eru fólgin í því að skima fyrir hættulegri tengslahegðun barna. Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem starfa með börnum á ólíkum vettvangi, innan skóla, leikskóla, kirkjunnar, íþrótta- og tómstundarstarfi og víðar.

Tengslaviðtöl sem vegvísar

Hjá Tengslamati er stuðst við DMM greiningar módelið, Dynamic-Maturational Model of Attachment and Adaption, sem skimar tilurð tengslahegðunar einstaklinga á ólíkum aldri. Slík viðtöl skima einnig fyrir hættu í tengslasamböndum, unnum sem og óunnum áföllum og depurð. Slíkt tengslaviðtal er góður vegvísir fyrir áframhaldandi stuðning við einstaklinga á öllum aldursskeiðum.

„Djúp og varanleg tilfinningatengsl eru forsenda hamingju og velgengni. Til þess að geta skilið einstaklinginn verður ávallt að líta til þeirra tengsla og jarðvegs sem einstaklingurinn sprettur úr. Hvernig tengslum í frumbernsku var háttað og hvernig fyrri reynsla hefur mótað líf einstaklings. Þannig getum við aldrei skilið tengslahegðun einstaklings eina og sér því tengslahegðun einstaklings verður ávallt til í samspili við aðra.“ segir Ragnheiður að lokum.

HGL

Nýjar fréttir