-3.2 C
Selfoss

Peningar tíndir af trjánum í Hveragerði

Frá upphafi starfs hönnunarhóps vegna byggingar nýs íþróttamannvirkis upp í Dal, var ljóst að ekki yrði tekið tillit til  framkvæmdakostnaðar né hönnunar- og framkvæmdatíma heldur virðist eingöngu hafa verið horft til óraunhæfra óska og draumsýnar fulltrúa O-lista og Framsóknar.

Það er óneitanlega sérstakt að hönnunarhópurinn sem skipaður var til að setja saman tillögur varðandi hönnun íþróttamannvirkisins og fyrirkomulag á allri aðstöðu, hafi ekki fengið neinn ramma um stærðargráðu og gæðastig byggingar út frá fjármagnsgetu bæjarfélagsins. Með vönduðum vinnubrögðum og vandaðri stjórnsýslu hefði átt að leggja línurnar um byggingu nýs íþróttamannvirkis, en í stað þess eru byggðar væntingar um skýjaborgir hjá iðkendum, þjálfurum og öðrum bæjarbúum. Það er mjög auðvelt að óska sér bæði allskonar og ýmissa hluta svona rétt eins og börnin gera fyrir jólin. Hamingjan felst í því að gleðjast og þiggja enda ætlast enginn til þess að börnin beri ábyrgð. Það á hins vegar ekki við um kjörna fulltrúa.

Framhaldið er óljóst

Fyrir kosningar héldu fulltrúar O-lista og Framsóknar því fram að nýtt íþróttamannvirki sem ekki yrði loftborið gæti verið komið upp í nóvember á þessu ári. Eftir kosningar breyttist það og nú er því haldið fram að nýja íþróttamannvirkið verði tilbúið til notkunar að ári. Allir sem skoðað hafa niðurstöður hönnunarhópsins sjá það að hönnun og framkvæmd af þeirri stærðargráðu sem hönnunarhópurinn leggur til tekur mun lengri tíma en eitt ár.

Ljóst er að kostnaður við byggingu íþróttamannvirkis, líkt og fulltrúar O-lista og Framsóknar leggja til, mun kosta meira en 1.5 milljarð króna, en ekki 260-600 milljónir króna líkt og fulltrúar O-lista og Framsóknar hafa sagt bæði fyrir og eftir kosningar að þetta íþróttamannvirki myndi kosta. Setjum þessa upphæð, 1.5 milljarða króna, í samhengi við tekjur Hveragerðisbæjar, sem eru um 3 miljarðar króna á ári og koma að lang mestu leiti frá skattgreiðendum. Það er um það bil helmingur eða meira af tekjum Hveragerðisbæjar sem færu í nýtt íþróttamannvirki ef byggja á í samræmi við niðurstöður hönnunarhópsins. Á sama tíma hefur verið samþykkt að byggja nýjan leikskóla og viðbyggingu við grunnskólann á næstu tveimur árum, sem mun samanlagt kosta nálægt 2.5 milljarð króna. Þá á eftir að reka sjálft bæjarfélagið, en nú þegar fara um 60% af tekjum bæjarfélagsins í fræðslumál og þá eru allir aðrir málaflokkar eftir.

Spurningin er gott fólk, hvar eigum við að skera niður?

Raunveruleikinn er sá að það eru einfaldlega ekki til peningar í rekstri bæjarfélagsins fyrir þessu óska og drauma íþróttamannvirki, nema það eigi að tína meiri peninga af okkur skattgreiðendum?

 

Friðrik Sigurbjörnsson og Alda Pálsdóttir
Bæjarfulltrúar D-listans

Fleiri myndbönd