-7.7 C
Selfoss

Létt Kínóasalat og ómótstæðilegt Rabbabarapæ

Vinsælast

Anna Lára Jóhannesdóttir er Sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni. Þau mistök áttu sér stað við vinnslu Dagskrárinnar í þessari viku að mynd af Ólöfu Kristjánsdóttur, matgæðingi síðustu viku birtist með uppskriftinni í stað myndarinnar af Önnu Láru og biðjumst við velvirðingar á því. Þessari frétt fylgir mynd af hinni réttu Önnu Láru.

Ég vil byrja á því að þakka listakokkinum og fagurkeranum henni Ólöfu vinkonu minni fyrir tilnefninguna.

Fyrri uppskriftin sem ég set inn er uppskrift að salati sem að dóttir mín kom mér á bragðið með, en hún hefur gefið mér mikinn innblástur þegar kemur að léttum og heilsusamlegum réttum.

Sú seinni er rabbabarapæ sem er mjög vinsælt í fjölskyldunni. Ég á alltaf til nóg af rabbabara í frysti sem ég sæki út í rabbabaragarð til mömmu minnar. Margir sem hafa haft litla trú á því að rabbabari getur verið góður í matargerð hafa fallið fyrir þessum eftirrétti.

Kínóasalat með grænkáli

Tveir bollar kínóa
Búnt af grænkáli
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar
1 stk avokado
10 stk kirsuberjatómatar
1/2 krukka fetaostur
1/3 bolli kasjúhnetur

Dressing
6 msk sítrónusafi
3 msk ólívuolía
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
2 stk pressuð hvítlauksrif
1 tsk hunang

Byrjið á því að skola kínóa og sjóða það eftir leiðbeiningum. Setjið það síðan til hliðar til kælingar. Næst er dressingin gerð. Grænkálið er svo rifið af stilkunum í hæfilega bita og er mikilvægt að nudda því mjög vel saman við dressinguna og er best að nota hendurnar við það.

Sólþurrkuðu tómatarnir eru skornir í hæfilega bita sem og avokadoið. Kirsuberjatómatarnir skornir til helminga og er þessu öllu blandað saman ásamt fetaostinum og kasjúhnetunum í skál. Að lokum er kínóanu bætt útí þegar það hefur kólnað.

Rabbabarapæ með hvítu súkkulaði

Botn:
400 gr rabbabari
1/2 dl hveiti
2 egg
2 1/2 dl sykur
1/2 plata hvítt súkkulaði

Mulningur:
1 3/4 dl hveiti
1 1/2 dl púðursykur
50 gr smjör

Byrjið á því að skera rabbabarann í ca. tveggja cm. langa bita. Síðan er hveiti, sykri og eggjum hrært saman og rabbabaranum blandað saman við. Þetta er sett í smurt eldfast mót. Súkkulaðið saxað niður og dreift ofan á.

Mulningurinn ofan á pæið er svo úr hveiti, púðursykri og smjöri. Best er að hafa smjörið mjúkt og er þessu myljað saman og dreyft yfir botnin.

Pæið er best borið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Að lokum ætla ég að tilnefna næsta matgæðing hana Maríu Magnúsdóttur, vinkonu mína sem er sannur snillingur í eldhúsinu.

Nýjar fréttir