3.4 C
Selfoss

Kannt þú sagnir af Suðurlandi?

Sagnir af Suðurlandi er nýr vefur þar sem má finna þjóðsögur af öllu Suðurlandi; frá Hellisheiði að Lómagnúpi. Verið er að safna fleiri sögum og eru íbúar á Suðurlandi hvattir til að senda sínar uppáhaldssögur og ljósmyndir.

Vefurinn, sagnirafsudurlandi.is, var unninn á Kirkjubæjarstofu í samstarfi við Bókaútgáfuna Sæmund á Selfossi og Árnastofnun. Verkefnisstjóri er Lilja Magnúsdóttir. „Júlíana Þóra Magnúsdóttir vann verkið með okkur en hún er þjóðháttafræðingur og hefur rannsakað þjóðsögur í Meðallandi og víðar. Beata í Vík í Mýrdal hefur aðstoðað með að fá efni úr Mýrdalnum og fékk m.a. teikningar hjá J. Laczkowski sem skreytti nokkrar þjóðsagnanna úr Mýrdalnum. Þórir Kjartansson hefur verið óopinber aðstoðarmaður við verkefnið en hann hefur gefið ljósmyndir og svarað fyrirspurnum um ýmislegt sem varðar Mýrdalinn. Erna Margrét Jóhannsdóttir var starfsmaður við verkefnið um tíma og setti inn fjölda sagna.

Vefsíðugerðin hefur unnið að endurbótum á vefnum en grunnuppsetninguna gerði Lília Carvahlo sem rekur fyrirtækið Thisislupina,“ segir Lilja Magnúsdóttir verkefnisstjóri.

Leita til Sunnlendinga

Lilja segir að margir tali um að við verðum að halda í gamlar sögur og menningararfinn. „Þetta er eitt skref í þá áttina. Ferðamenn, íbúar, nemendur í skólum eða hver sem er getur flett upp sögum þar sem hann er staddur. Það er kort á vefnum sem sýnir sögurnar í nágrenninu. Nú þarf ekki lengur að rogast um með stór þjóðsagnasöfn heldur eru þær aðgengilegar hvar og hvenær sem er. Það er auðvelt að leita á vefnum. Sögurnar eru flokkaðar eftir efni og svæðum. Við margar sagnanna eru myndir af sögupersónum eða sögustaðnum en okkur vantar miklu fleiri myndir. Næsta skref er að fá áhugasama til að aðstoða okkur við að setja inn fleiri sögur. Lesendur eru hvattir til að skoða sína heimasveit og athuga hvort þeir kunni eða viti um þjóðsögu úr nágrenninu. Söguna má senda beint inn á vefinn ásamt mynd,“ segir Lilja að lokum.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt eru hvött til að hafa samband við Lilju í gegnum sagnirafsudurlandi.is.

Fleiri myndbönd