3.9 C
Selfoss

Bandarísk morgunverðaregg

Ólöf Kristjánsdóttir er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég þakka Andreu Rafnar fyrir að tilnefna mig í Sunnleska matgæðinginn. Þegar við fjölskyldan bjuggum í Portland, Oregon í Bandaríkjunum lærðum við að borða egg og grænmeti í morgunmat. Þar var ég með hænur í kofa og grænmetisgarð, rétt eins og núna á Helgastöðum.

Hrærð egg með léttsteiktu grænmeti er mjög vinsæll morgunmatur á mínu heimili. Uppskriftina aðlaga ég að því sem til er af grænmeti. Eigi ég afgang (kartöflur eða annað grænmeti) frá deginum áður steiki ég það iðulega með.

Góð klípa af smjöri
1/2 laukur
1 paprika
250 gr kirsuberja tómatar
grænkál eftir smekk
1 jalapeno eða svipaður sterkur chili (má nota minna eða sleppa alveg)
1/2 tsk salt

Skerið lauk, papriku og grænkál í strimla. Saxið chili smátt. Svissið laukinn í smjöri á pönnu yfir meðalhita þar til hann mýkist og bæti þá við pariku og chili og steikið áfram í 3-4 mínútur. Bætið tómötum og grænkáli á pönnuna og saltið. Látið malla undir loki í 2 mín. Færið yfir á disk og haldið heitu á meðan pannan er notuð til að steikja eggin.

Góð klípa af smjöri
8 egg, létt hrærð saman í skál eða í blandara
u.þ.b. 50 gr rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Bræðið smjör á heitri pönnu og hellið hrærðum eggjum á pönnuna. Lækkið hitann í lágan straum. Galdurinn við góð egg er að hafa hitann ekki of mikinn og hræra í jafnóðum með píski. Slökkvið svo á hitanum en hafið pönnuna enn á hellunni þegar eggin eru rúmlega hálf elduð og bætið þá við parmesan, salti og pipar og haldið áfram að hræra þar til eggin eru elduð en enn mjúk.

Berið strax fram, hvort fyrir sig eða skammtið á diska fyrir hvern og einn.

Ég skora á vinkonu mína Önnu Láru Jóhannesdóttur í Syðra Langholti því ég veit að hún lumar á góðum uppskriftum.

Fleiri myndbönd