-7.1 C
Selfoss

  Friðrik Erlingsson heggur stórt og óvarlega

Friðrik Erlingsson rithöfundur skrifar langhund í síðustu Dagskrá til að svara gagnrýni minni á söguhéraðið Rangárþing fyrir að öll umgjörð um Sögusetrið og upplifun á Njáluslóð er ,,hornkerling,” og sögunni ekki gerð þau skil sem henni ber.

Friðrik er greinilega líkari Valgarði gráa og Merði syni hans á Stóra-Hofi í framgöngu og háttum en Njáli á Bergþórshvoli sem með speki og manndómi lagði alltaf gott til málanna. Þeir Stóra-Hofsfeðgar voru frægir í Njálu fyrir að koma illindum af stað og hetjunum fyrir kattarnef. Friðrik tekur að saka einn  hóp manna Framsóknarmenn um alla ábyrgð á því hvernig mál hafa þróast.

Mín skrif voru fyrst og fremst sett fram til að vekja ráðamenn héraðsins og hvetja þá til dáða hvar sem í flokki þeir standa. Af öllum mönnum vil ég nefna frumkvöðulinn Sæmund Holgersson tannlækni í Hvolsvelli sem dró vagninn í upphafi jafnframt tel ég að Ísólfur Gylfi Pálmason framsóknarmaður hafi staðið þessa vakt með miklum ágætum þá Sögusetrið og Njálssaga var sett í öndvegi, ásamt fólki úr öllum flokkum.

Friðrik lítillækkar sjálfan sig hvernig hann talar um Samvinnusafnið og reynir að niður-lægja mínar ábendingar með því að gera mig að einhverskonar óvini í mikilvægri umræðu. Margir Rangæingar hafa þakkað mér fyrir hvatninguna og taka undir hugsjónir mínar, og harma hvernig mál hafa þróast. Ég hef átt samtal við Anton Kára Halldórsson sveitarstjóra í Rangárþingi Eystra og fór vel á með okkur, við höfðum sömu sýn á málin. Ennfremur Jón G Valgarðsson sveitastjóra í Rangárþingi Ytra. Ég hef rætt við Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra sem er tilbúinn til samstarfs við Rangæinga um Njálssögu og Oddastað sem ól Snorra Sturluson upp til tvítugs, fóstra hans Jón Loftsson og Sæmund fróða og þá miklu sögu og það stóra hlutverk sem Oddi gengdi og gegnir enn í Rangárþingi.

Eitt vindhögg frá Friðrik Erlingssyni eflir mig og skrif mín þjappa vonandi Rangæingum saman.  Og sannarlega sé ég fyrir mér hátíðisdag næsta sumar þar sem Njáluhátíð verður í hávegum höfð og Flosi ríður með níutíu og níu víkinga ofan frá Þríhyrningi að Bergþórshvoli, og varðeldur verður kveiktur til minningar um einn mesta harmleik Íslandssögunnar. Áfram Rangæingar! Svo bið ég hetjur rangárþings afsökunar á mismælum mínum á Hringbraut þar sem ég sagði Njálurefilinn aðeins 18 metra en ekki 90 metra.

Fleiri myndbönd