-10.5 C
Selfoss

Hæðin, Brúin og Gjáin töpuðu fyrir Miðbar

Í júní sem leið var efnt til nafnasamkeppni fyrir nýjan skemmtistað í miðbæ Selfoss sem opnaði í sumar. „Þáttakan var mjög góð, betri en við bjuggumst við en það voru á sjötta hundrað tillögur sem streymdu inn. Gjáin var vinsæl, aðrar tilnefningar voru til dæmis Hæðin, Brúin, Kambar og rúmlega 20 manns lögðu til nafnið Miðbarinn en þau voru 7 sem stungu upp á Miðbar. Eftir að hafa skeggrætt nöfnin fram og aftur varð Miðbar fyrir valinu,“ segir Hlynur Friðfinnsson, framkvæmdasjóri sem fær sjaldan frí, en um þessar mundir er hann og allt fólkið sem kemur að Miðbar á fullu við að standsetja Sviðið sem á að opna á hæðinni fyrir neðan Miðbar í september.

Dregin úr hatti

Í ljósi þess að 7 manns deildu hugmyndinni að Miðbar var brugðið til þess ráðs að draga úr hatti og heitir sú heppna Kristín Edda Sigurðardóttir sem búsett er á Selfossi og var henni í tilefni þess boðið á Miðbar á mánudaginn síðasta, þaðan sem hún var leyst út með gjafabréfum að andvirði 50.000 krónur sem hún getur nýtt á Miðbar, Risinu og á veitingastöðunum í Mjólkurbúinu. „Ég hef aldrei unnið neitt og tek eiginlega aldrei þátt í neinu svona, en ég hafði einhverja tilfinningu fyrir þessu og ákvað bara að slá til, þetta er líka fínasta nafn“ segir Kristín létt í bragði. Við óskum henni til hamingju og erum viss um að hún eigi eftir að njóta vel á Miðbar, sem hún á nú næstum svolítinn hlut í.

Fleiri myndbönd