-10.4 C
Selfoss

Afl þeirra hluta sem gera skal

Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður Suðurlands og landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins, lagði fram í grein hér í Dagskránni þann 18. ágúst stl. nokkrar spurningar um framtaksleysi Rangæinga varðandi Sögusetur, Njálssögu ofl. Nú get ég að sumu leyti veitt honum svör varðandi stöðu Söguseturs, eins og hún er í dag, en staðreyndin er sú að ábyrgðin liggur að einu og öllu leyti hjá flokkssystkinum hans, sem höfðu meirihluta í sveitarstjórn Rangárþings eystra síðustu tvö og hálft kjörtímabil. Það er því styttra fyrir hann að leita skýringa en að birta opinbera fyrirspurn sem beint er til allra Rangæinga.

Sögusetrið á Hvolsvelli.

Undirritaður sendi á sínum tíma ítrekað inn greinargerðir og tillögur að endurnýjun sýningarinnar í Sögusetrinu á Hvolsvelli, án árangurs. Og ég veit að ég var ekki einn um að tala máli Söguseturs fyrir daufum eyrum flokkssystkina Guðna. Þó fékk ég fyrst viðbrögð þegar ég lagði til að hinu svokallaða Kaupfélagssafni, sem tekur stóran hluta af húsnæði Söguseturs, skyldi pakkað saman og sett í geymslur eða komið fyrir annars staðar, því þau salarkynni mætti nýta á mun betri hátt, einmitt fyrir Njálssögu og sýningu henni tengdri. Þá reis Framsókn upp á afturlappirnar af svo miklu afli að aðsóknin að Kaupfélagssafninu jókst snögglega um 50%. Það komu sumsé tveir Selfyssingar og greiddu aðgöngumiða. Saga Kaupfélaganna er merk og mikilvæg í okkar þjóðarsögu, en yngri kynslóðir þekkja ekki þá sögu, svo til þess að gera þessum tíma skil á sýningu, svo gestir geti uppfræðst um fyrirbærið Kaupfélag, þarf meira en að stilla upp myndum og landbúnaðartólum í einu húsi á Hvolsvelli. Sæmast væri að Kaupfélag Skagfirðinga tæki safnið að sér og kostaði stóra og vandaða sýningu, jafnvel sýndarveruleikasýningu, eða fjármagnaði gerð vandaðrar heimildaþáttaraðar um sögu kaupfélaganna. Eins og Guðni hlýtur að vita, þá eru peningar afl þeirra hluta sem gera skal, en Sögusetrið hefur ekki notið fjármagns sem skyldi í gegnum tíðina. Ekki dettur mér til hugar að forsmá hina stórfenglegu hamborgara sem nú eru framreiddir í húsnæði Söguseturs; ekki hefði Gunnar á Hlíðarenda fúlsað við svo hraustlegri máltíð, hvað þá Hallgerður, en hinu neita ég ekki að ég hefði gjarnan viljað sjá endurnýjaðri Njálusýningu gerð betri skil. En nú er hvorki við veitingamanninn að sakast í þeim efnum, né heldur þá Rangæinga sem hafa látið sig málið varða, heldur, eins og fyrr var nefnt: flokkssystkini Guðna sjálfs.

Sæmundarstofa í Odda.

Guðni nefnir einnig Odda og nefnir framtíðarsýn sína fyrir hönd þess merka sögustaðar. Það er gaman að geta upplýst Guðna um það, hafi hann ekki vitað það áður, að Oddafélagið hefur frá stofnun, eða í rúm þrjátíu ár, haft efst á sinni stefnuskrá að reist skuli Sæmundarstofa í Odda; fræðasetur með sýningum, bókasafni og þjónustu, og á síðustu árum hefur þessi hugmynd verið þróuð áfram að því marki að Sæmundarstofa verði fræðasetur annars vegar og ný Oddakirkja hins vegar, sem taki um 400 manns í sæti, sérhönnuð til tónlistarflutnings. Oddafélagið hefur látið vinna þessar hugmyndir í tillöguform, í samvinnu við Sigríði Sigþórsdóttur hjá Basalt arkitektum, og vonandi tekst að kynna tillögurnar á þessu ári. Svo Guðni þarf ekki að óttast neitt um framtíð Oddastaðar né minningu Oddaverja í Rangárþingi. En – peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal. Oddafélagið hefur lagt sig fram um að kynna þetta metnaðarfulla verkefni fyrir sveitarstjórnunum þremur í Rangárþingi, Þjóðkirkjunni, ráðherrum og fleiri aðilum, með það í huga að afla fjár til verksins. Gott væri ef Guðni legði lóð sitt á þær vogarskálar, svo vel tengdur sem hann er inn í innsta hring. En það er hárrétt athugasemd hjá Guðna að það ætti að vera sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna, Ásahrepps, Rangárþings ytra og eystra, að lyfta úr mold hinni sögustóru fold í Odda, hinu merka höfuðbóli Suðurlands sem lék svo risastórt hlutverk í þjóðar- og menningarsögunni og fóstraði þar að auki Snorra Sturluson og kom honum til manns. Oddi ætti skilyrðislaust að vera skilgreindur sem Þjóðmenningarstaður og fá að njóta þeirrar stöðu sinnar með reglulegum fjárframlögum.

Njálurefill.

Ég er ekki vel að mér um stöðuna á Njálureflinum, því mikla og merka listaverki rangæskra kvenna, en þó hef ég heyrt að til standi að endurhanna fyrrum veitingaastöðu Lava-seturs sem sérútbúinn sýningarsal fyrir Njálurefilinn. Ríkisstjórnin veitti 25 milljóna styrk til þessa verkefnis á síðasta ári. Enn og aftur eru peningarnir afl þeirra hluta sem gera skal, og hér þarf áreiðanlega að bæta um betur svo refillinn fái sem fyrst það rými og þá athygli sem hann á fyllilega skilda.

Reiðleiðir og skáldskapur í Njálu.

Því miður er ég ekki hestamaður, en þekki þá nokkra, og m.a. einn sem er sérdeilis vel að sér um reiðleiðir í Rangárþingi og sérstaklega þær sem lýst er í Njálu. Við ræddum fyrir skömmu reiðleið Höskuldar Njálssonar, sem sagður er hafa riðið dag hvern frá Bergþórshvoli að búi sínu Holti, sem talið er að hafi staðið einhvers staðar suður af Þríhyrningi. Minn ágæti vinur og hestamaður fullyrti að það stæðist ekki, því reiðin tæki allan daginn og fram á kvöld. Svo ekki reið Höskuldur daglega fram og til baka, jafnvel þótt svo sé fullyrt í Njálu, en það verður sannarlega spennandi að fylgjast með reið hinna 99 reiðmanna sem ætla að fara Flosareið frá Þríhyrningi að Bergþórshvoli næsta sumar. Brennu-Njáls saga er að sjálfsögu skáldsaga, að því marki að helstu persónur hennar lúta mörg þúsund ára lögmálum frásagnarlistarinnar, þá sérstaklega lögmálum harmleiksins, líkt og hinar fornu konungasögur Persa, Shahnameh, sem ritaðar voru af skáldinu Firdausi Toosi í upphafi 11. aldar. Að baki skrásetningu Njálu er án efa munnleg geymd sagnakarla og -kvenna, sem hafa ferðast á milli höfuðbóla og flutt sagnaþætti og kvæði fyrir borgun – því peningar eru jú afl þeirra hluta sem gera skal – jafnvel ómerkilegt sagnafólk þarf sitt bein að naga; þetta sagnafólk hefur mótað söguþráð sagnaþáttanna eftir viðtökum áheyrenda í gegnum tíðina, fínpússað efnið og slípað það til. Þegar rittækni og þekking á bókagerð var komin til þroska hér á landi, verða þessi sagnaþættir uppistaða höfundar í héraðssögu Rangæinga: Njálssögu. Hvernig hann lagaði efnið í höndum sér getum við ekki vitað, en hann hefur skilað okkur lifandi dýrgrip þar sem heyra má þjóðarhjartað slá. Tæplega hefur höfundur Njálu gert ráð fyrir að saga hans yrði enn lesin og dáð rúmum 700 árum eftir að hann setti punktinn. Og ég óska þess, eins og Guðni, að þessu mikla verki og hinni merku sögu Oddaverja á miðöldum verði gerð skil með sómasamlegum hætti áður en bein okkar sem nú lifum verða orðin að dufti og ösku. En til þess að svo megi verða þurfum við að hafa það á hreinu að peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal.

Friðrik Erlingsson

Fleiri myndbönd