-7.1 C
Selfoss

Að byggja dómkirkju eða raða múrsteinum

Guðmundur Ármann

Fyrirsögn þessarar greinar eru mismunandi svör tveggja verkamanna við sömu spurningunni. Manna sem voru að vinna sama starf við sömu framkvæmd. Annar raðaði múrsteinum á sínum þrönga bás á meðan var hinn að byggja dómkirkju.

Viðhorf okkar hafa afgerandi áhrif á með hvað hætti við göngum til verka og hvaða árangri við náum.

Sveitarfélagið Árborg þarf að ná árangri. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru mörg, þau eru krefjandi, spennandi og mikilvæg. Viðbrögð við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, fjárþörf og fjárhagsáætlunargerð verða þó án efa mikilvægustu verkefni haustsins.

Við þá mikilvægu vinnu er hættan sú að farið verði á fulla ferð í að „raða múrsteinum“. Kunnuglegur tónn byrjar enn á ný; niðurskurður um þetta mörg prósent á þessu sviði og þetta mörg prósent á hinu sviðinu. Þetta mikla hækkun á fjárveitingum til þessa málaflokks og um þessa prósentuhækkun á þennan málaflokk. Svo er það gamla góða leiðin, flatur niðurskurður – jafnt á alla. Allir á fullu að verja sitt – að passa sinn múrstein.

Nú er lag að breyta til, horfum á dómkirkjuna – horfum á stóru myndina.

Nýtum haustið til að vera skapandi, já meira að segja við fjárhagsáætlunargerð og við krefjandi aðstæður. Stöldrum við og endurhugsum. Finnum nýjar leiðir, opnum á ný tækifæri og einföldum.

Köllum eftir hugmyndum og vinnum með hugmyndir. Einföldum stjórnsýsluna og gerum hana aðgengilegri og skilvirkari. Tökum upp vandaða og heildstæða stafræna stjórnsýslu. Þannig bætum við m.a. aðgengi að upplýsingum og samskipti stjórnsýslunnar við íbúa sveitarfélagsins. Stafræn stjórnsýsla bætir starfsaðstæður, opnar á sveigjanleika fyrir starfsfólk og eykur hagkvæmni í rekstri.

Treystum starfsfólki fyrir verkefnum og aukinni ábyrgð í stað þess að horfa á stimpilklukku og trúa því að starfsmaður geti aðeins unnið ef hann er við sitt skrifborð á sinni skrifstofu.

Verum óhrædd við skoða og leggja mat á það sem er og hefur verið. Er t.d. tímabært að sveitarfélagið sjái um og beri sjálf ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk í Árborg eða viljum við áfram vera í byggðasamlagi 13 sveitarfélaga? Er það ófrávíkjanleg staðreynd að sveitarfélagið eigi að byggja skólahúsnæði og hafa kennara á launaskrá? Getum við einfaldað og haldið okkur við að það sé sveitarfélagsins að tryggja börnum og unglingum framúrskarandi góða kennslu við bestu aðstæður? Ef við nálgumst verkefnið á þeim forsendum opnast tækifæri og nýir möguleikar.

Höfum það hugfast að það er hlutverk sveitarfélagsins að tryggja að þjónusta sé veitt, ekki nauðsynlega að veita þjónustuna.

Það er með þetta verkefnin eins og dómkirkjuna, breytingin verður ekki frekar en byggingin til á einni haustnótt. En ef markmiðin og stóra myndin eru okkur skýr þá mun þeim fækka sem raða múrsteinum og þeim fjölga sem byggja dómkirkju í sveitarfélaginu Árborg.

Horfum á stóru myndina, verum skapandi og óhrædd við að gera breytingar.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir