Ragnarsmótið fór af stað á mánudaginn þar sem karlalið Selfoss í handbolta tapaði naumlega fyrir Aftureldingu í Set höllinni með markatölunni 32-34. Ragnarsmótið er nú haldið í 34. sinn en það er árlegt minningarmót til minningar um Ragnar Hjálmtýsson, einn af efnilegri handboltamönnum Selfoss sem lést í hörmulegu bílslysi árið 1988, aðeins 18 ára gamall.
Fram til ársins 2015 var mótið aðeins karlamót en síðan þá hefur mótinu verið skipt upp í karla- og kvennamót. Mótið er eitt elsta æfingamót landsins í handknattleik og hefur löngum þótt eitt það skemmtilegasta. Yfirleitt mætast bestu lið landsins á mótinu og markar það upphaf keppnistímabilsins í handboltanum.
Frítt er inn á alla leiki mótsins að vanda.