7.8 C
Selfoss

Töfrandi listasýning á Eyrarbakka

Svífandi sturtubotn á háalofti, töfrandi fjárhús og furðulegur ómur inni í Eggjaskúr er brot af því sem hægt er að upplifa á listasýningunni Hafsjór – Oceanus í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka.

Ásta Guðmundsdóttir sýningarstjóri verður með leiðsögn tvo sunnudaga í röð 14. og 21. ágúst og hefst leiðsögn kl. 16.00 báða dagana.  Þessi einstaka listasýning teygir sig um öll húsakynni byggðasafnsins og umhverfi þess. Þannig prýða t.d. útilistaverk umhverfið og útihúsin urðu líka sýningarrými.  Sýningin Hafsjór – Oceanus samanstendur af verkum 20 listamanna sem tóku þátt í samnefndri listahátíð fyrr í sumar. Listafólkið kom víða að, frá Nepal, Suður Kóreu, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu, Mauritius, Indlandi, Litháen, Póllandi, Frakklandi og Íslandi. Allir unnu með sögu og menningu svæðisins sem skilaði sér í viðamikilli sýningu sem vekur forvitni og eftirtekt. Það er nokkuð einstakt að færa listasýningu inn á fastar sýningar byggðasafns og þykir það hafa tekist frábærlega.  Ásta færir gesti frekar inn í þann undraheim.

Frítt er á leiðsögnina sem hefst kl. 16 báða sunnudagana. Verið velkomin.

Fleiri myndbönd