1.7 C
Selfoss

Lóu styrkur til Háskólafélags Suðurlands

Nýlega úthlutaði Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir  landsbyggðina. Við erum stolt af því að Háskólafélag Suðurlands hlaut 3.750.000 kr. styrk til verkefnisins „Sunnanátt – Nýsköpun á Suðurlandi“. Sunnanátt er röð viðburða á Suðurlandi sem er ætlað til að virkja einstaklinga og fyrirtæki í að taka þátt í nýsköpunarverkefnum og efla þannig atvinnulíf á Suðurlandi. Sunnanátt er stuðningsnet fyrir frumkvöðla á Suðurlandi þar sem leiðarar eru frá Kambabrún, að Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum.

Verkefninu er stýrt af Háskólafélagi Suðurlands en er samstarfsverkefni fjölmargra aðila á Suðurlandi; SASS, Nýheima þekkingarseturs, Kötluseturs, Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Orkídeu, Markaðsstofu Suðurlands, Kirkjubæjarstofu og Ölfus Cluster auk Eims fyrir hönd Norðanáttar.

Styrkurinn fékkst til að halda lausnamót (hakkaþon), frumkvöðlakeppni og fjárfestahátíð. Nýsköpun er helsta verkfæri samfélaga til að takst á við þær áskoranir sem fyrir þeim standa en nýsköpun verður ekki til í tómarúmi. Það þarf frjóan jarðveg og verðug vandamál að glíma við. Verkefninu er ætlað að ná til frumkvöðla svæðisins og hvetja þá til dáða. Við viljum styðja við einstaklinga og teymi sem eru að taka sín fyrstu skref og jafnframt ná til frumkvöðlastarfsemi fyrirtækja sem oft ber minna á, en í felast mikil tækifæri til aukinna fjárfestingar.

Næstu vikur og mánuðir verða nýttir til undirbúnings og verður hver viðburður kynntur nánar þegar að honum kemur. Alls bárust 100 umsóknir í Lóu styrki, af þeim voru veittir 21 styrkur upp á alls 95 m.kr.  Af þeim fóru 6 styrkir vítt og breitt um Suðurland (28,6% styrkja) og hlutu þeir 27,6 m.kr. (29,1% fjármagns).

Nýjar fréttir