3.9 C
Selfoss

Einskær Hamingja við hafið

Hamingjan við hafið fór fram í Þorlákshöfn 2.-6. ágúst mest megnis í blíðskapar veðri. Boðið var upp á fjölmarga dagskráliði þar sem allur aldur fékk eitthvað við sitt hæfi. Sem dæmi um viðburði þá má nefna froðurennibraut og froðubolta, sundlaugapartý, garðtónleika um allan bæ í samstarfi við Hljómlistafélag Ölfuss, litaskrúðgöngu og hverfapartý í bræðslunni, barnasprell með ótal leiktækjum, sirkus og leikvelli með opnum efnivið, sandkastalagerð, sjósund, Leikhópinn Lottu, sýningar og sölur um allan bæ og svo margt fleira.

Það var svo gríðarleg eftirvænting eftir stórtónleikunum í Reiðhöll Guðmundar þar sem fram komu DJ EJ, Moskvít, Sunnan 6, Bassi Maraj, Reykjavíkurdætur og Albatross með Sverrir Bergman í fararbroddi ásamt löngum gestalista. Þeir voru á sviðinu í tvær og hálfa klukkustund og fengu til sín Önnu Möggu, Júlí Heiðar, Emilíu Hugrúnu, Lay Low, Jónas Sig, Röggu Gísla og leynigestinn Magnús Þór ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar og Fjallabræðrum.

Það virðist vera almennt álit viðstaddra að þessir tónleikar hafi verið á meðal þeirra bestu sem sem fólk hefur upplifað, svo mikil er ánægja tónleikagesta.

Halldór Gunnar, sem fer fyrir bæði Fjallabræðrum og Albatross sagði að það væri langt síðan honum hefði liðið eins vel á sviði og þetta kvöld, salurinn söng með eins og einn maður. Lúðrasveitin og Fjallabræður voru upp á sitt allra besta og stjörnurnar sem komu fram sem gestasöngvarar skinu sínu skærasta ljósi.

Tónleikarnir voru einnig ókeypis eins og allir aðrir viðburðir í Hamingjunni við hafið og er vert að þakka sérstaklega öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að hátíðinni sem Sveitarfélagið Ölfus stendur fyrir, en eins og verkefnastjóri Hamingjunnar, Ása Berglind bendir á þá væri þetta ekki hægt án þeirra fjölmörgu aðila sem leggja hátíðinni lið, ýmist í formi fjárframlags eða annarskonar stuðnings. Bestu þakkir til allra sem komu að hátíðinni á einn eða annan hátt og sérstaklega til þeirra fjölmörgu gesta sem komu, sáu og skemmtu sér eins fallega og raun ber vitni.

Fleiri myndbönd