-3.6 C
Selfoss

Líf og fjör er á Unglingalandsmóti UMFÍ

Vinsælast

Líf og fjör er á Unglingalandsmóti UMFÍ sem nú stendur yfir á Selfossi. Mjög rættist úr aðsókninni en um 1.000 mótsgestir á aldrinum 11-18 ára eru í bænum ásamt fjölskyldum sínum og því um 4-5.000 manns á mótinu.

Mótið hófst í morgun klukkan 10 með keppni í golfi, frjálsum íþróttum, körfubolta, knattspyrnu og sandblaki. Gríðarlega þátttaka er í sandblaki, kökuskreytingum og pílukasti eða um og yfir 200 þátttakendur í hverri grein.

Veðrið hefur líka reynst mun betra en spár gerðu ráð fyrir og brostið á með brakandi blíðu á Selfossi. Tjaldstæðið er flott og fínt og þar eru mótsgestir frá landinu öllu. Á tjaldsvæðinu er líka samkomutjald þar sem tónleikar eru haldnir á hverju kvöldi á meðan mótinu stendur.

Unglingalandsmót UMFÍ er kolefnisjafnað. Hugmyndasmiður og skipuleggjandi kolefnisjöfnunarinnar er Hrein Óskarsson skógfræðingur. Hér er viðtal við hann ásamt mynd handa ykkar frábæra fjölmiðli. Þið megið nota allar myndir í viðhengi að vild.

Hreinn Óskarsson: Þátttakendur geta plantað á golfvellinum

Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina verður kolefnisjafnað. Jöfnunin felst í því að gróðursettar verða tvær trjáplöntur fyrir hvern þátttakenda á Unglingalandsmótinu. Gestum mótsins og þátttakendum var boðið að koma á golfvöllinn á Selfossi á milli klukkan 14:00 – 17:00 í dag að gróðursetja.

Önnur plantan sem hver þátttakandi fær táknar viðkomandi en hin plantan fjölskyldu viðkomandi.

Hreinn á hugmyndina að kolefnisjöfnuninni en hann fékk hana einmitt á Unglingalandsmóti þegar hann var þar með fjölskyldu sinni.

„Þegar við fjölskyldan tókum þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði árið 2019 sá ég öll farartækin sem þar voru saman komin og fékk þá hugmynd að kanna áhugann á því að kolefnisjafna mótið með gróðursetningu trjáplantna. Við ræddum þetta hér á kaffistofunni hjá Skógræktinni og var hugmyndinni komið á framfæri við HSK. Vel var tekið í hana,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni og umsjónarmaður með kolefnisjöfnun Unglingalandsmótsins. Hreinn er líka sérgreinarstjóri í götuhjólreiðum á mótinu.

Fengu styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ

Plöntur er til taks á mótssvæðinu og er stefnt að því að gróðursetja svæðin milli brauta á golfvellinum. Opið verður í gróðursetningu á ákveðnum tímum sem auglýstir verða síðar. Þátttakendur á mótinu geta því komið og gróðursett tré á meðan enn verða til plöntur.

Hreinn segir að með þessu framtaki séu slegnar nokkrar flugur í einu höggi. „Í fyrsta lagi kolefnisjöfnum við auðvitað mótið á næstu árum og áratugum eftir því sem trén vaxa, við búum til skjól fyrir golfara og vonum svo auðvitað að þetta verði framvegis gert í gróðurreitum víða um land sem tileinkaðir verði ákveðnum viðburðum UMFÍ,“ segir hann.

Framkvæmdanefnd Unglingalandsmótsins á Selfossi fékk styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ árið 2020 til að kolefnisjafna mótið og er það samstarfsverkefni Skógræktarinnar, HSK, Golfklúbbs Selfoss, mótshaldara Unglingalandsmótsins.

Allir þátttakendur og mótsgestir á Unglingalandsmótinu voru hvattir í dag til að koma við á golfvellinum á Selfossi og leggja lið við kolefnisjöfnunina.

Nýjar fréttir