-5.8 C
Selfoss

Fajitas og Snickers-hrákaka

Vinsælast

Katrín Rut Sigurgeirsdóttir er matgæðingurinn þessa vikuna.

Ég þakka móður minni Sigurlínu kærlega fyrir áskorunina. Við eigum margt sameiginlegt og er matseld og bakstur þar á meðal. Sá réttur sem ég er iðulega beðin um að elda þegar ég fæ gesti er kjúklinga fajitas og er uppskriftin eftirfarandi:

Fajitas vefjur

  • 4-6 kjúklingabringur
  • 1 msk. smjör
  • 2 paprikur (ein græn og ein rauð)
  • 1 tsk. laukduft
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 1/2 tsk. chiliduft
  • 1 msk. reykt paprikukrydd
  • 1 tsk. cuminduft
  • 1 tsk. kókospálmasykur eða púðursykur
  • 1 pakki af miðlungs tortilla pönnukökum (t.d. Santa Maria)
  • 1 dolla af sýrðum rjóma
  • 1 dolla af Santa Maria salsa-sósu
  • 1 poki af rifnum osti
  • 1 rauðlaukur
  • Smá salt

Kjúklingabringurnar eru skornar í strimla og eldaðar í ofni í u.þ.b. 20 mínútur á 200°C. Paprikurnar eru skornar í strimla og steiktar á pönnu í smjörinu þangað til brúnirnar eru orðnar örlítið brenndar. Kjúklingurinn er settur á pönnuna með paprikunum. Því næst er kryddinu ásamt sykri og salti bætt við og hrært vel. Rauðlaukurinn, salsasósan, sýrði rjóminn og osturinn eru sett í vefju ásamt góðgætinu af pönnunni og voila! Gómsæt fajitas vefja sem flestir elska.

Í eftirrétti vil ég nota sem minnstan sykur en það þýðir ekki að rétturinn þurfi að vera óætur. Ég er ekki þekkt fyrir að vera mjög nákvæm í mælingum þegar kemur að bakstri en þessar mælieiningar eru u.þ.b. réttar. Hér er því uppskrift af þrælgóðri og laufléttri snickers hráköku!

Snickers hrákaka

  • 4-5 dl möndlur með hýði
  • 1 dl heslihnetur
  • 1/2 bolli kókosolía
  • 15-20 stk. medjool döðlur (eða venjulegar lagðar í bleyti í sjóðandi vatni í 15 mín)
  • 2 msk. smjör
  • Sjávarsalt
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 1-2 dl salthnetur
  • 200 gr. suðusúkkulaði eða sykurlaust dökkt Valor súkkulaði

Möndlunum og heslihnetunum er dreift á ofnplötu og þær ristaðar í ofni á 150° í u.þ.b. 15-20 mín. Mikilvægt er að hræra nokkrum sinnum í þeim á meðan. Hneturnar eru teknar úr ofninum og látnar kólna örlítið. Svo eru þær muldar í matvinnsluvél ásamt kókosolíu og smá salti. Ekki láta vélina mylja hneturnar of mikið svo þær verði ekki að dufti. Hnetublandan er svo sett í hringlaga smellumót með bökunarpappír í botninum og inn í frysti. Því næst eru steinar fjarlægðir úr medjool döðlunum og þær hitaðar í potti með smjörinu þangað til úr verður þykk drulla. Þá er vanilludropum bætt við og salti eftir smekk. Drullumallið er síðan sett í matvinnsluvél eða blandara og blandað saman þar til að úr verður silkimjúk karamella. Karamellunni er bætt ofan á hnetubotninn og salthnetunum er stráð ofan á og aftur inn í frysti. Þá er súkkulaðið brætt með frjálsri aðferð og svo hellt ofan á kökuna. Best er að geyma hana í ísskáp í nokkra tíma áður en á að gæða sér á henni.


Ég skora á mína allra bestu æskuvinkonu og stórbónda hana Vilborgu Rún Guðmundsdóttur að vera matgæðingur vikunnar í næsta blaði. Hún er mikill sælkeri og maður verður aldrei fyrir vonbrigðum með matseldina hjá henni.

Nýjar fréttir