0.6 C
Selfoss

Valgerður E. Hjaltested vann brons á Norðurlandameistaramótinu 2022

Vinsælast

Sunnlendingurinn Valgerður Einarsdóttir Hjaltested vann brons úrslitaleik einstaklinga örugglega 6-2 gegn Elin Merethe Kristiansen frá Noregi á Norðurlandameistaramóti ungmenna (NUM) í Kemi í Finnlandi um helgina. Valgerður var að keppa U21 kvenna sem var fjölmennasti flokkur á mótinu og í Ólympískum sveigboga sem er erfiðasta keppnisgreinin til þess að ná tökum á.

Valgerður var í 5. sæti í undankeppni mótsins á laugardaginn, en lítill munur var í undankeppni á stelpunum í 3.-5. sæti og því góðar líkur á því að Vala gæti tryggt sér verðlaun á mótinu ef hún ætti góða leiki, en það yrði harður bardagi.

Í 16 manna úrslitum sátu efstu þrír keppendur hjá og Valgerður mætti Ingrid Støle Klo frá Noregi og vann leikinn örugglega 6-0. Í 8 manna úrslitum mætti Emmi Ala-Aho frá Finnlandi sem við þekkjum vel frá HM ungmenna 2021 þar sem Emmi var í 33 sæti og ætti því að vera erfiður keppandi fyrir Valgerði að mæta. En Valgerður gerði sér lítið fyrir og vann leikinn af miklu öryggi 7-1. Í undanúrslitum mætti Valgerður Amalie Storlev frá Noregi sem við þekkjum einnig frá HM ungmenna og var einnig í 33 sæti þar. Þar hafði sú Norska betur 6-0 og Valgerður því að keppa um brons við Elin Mereth Kristiansen frá Noregi á meðan Amalie Storlev og Helin Susanna frá Finnlandi kepptu í gull úrslitum. Amalie vann gull úrslitaleikinn og Valgerður vann brons úrslitaleikinn. Endanleg úrslit Noregur gull, Finnland Silfur og Ísland Brons.

Valgerður byrjaði í bogfimi þegar hún var 16 ára að skjóta sér til gamans og keppti á sínu fyrsta móti 2018 þar sem hún skoraði heil 12 stig af 720 mögulegum. Sem er að ég held næst versta skor sem skráð hefur verið í undankeppni í móti á Íslandi. Þetta var fyrsta og síðasta NUM erlendis sem að Valgerður getur keppt á í U21 flokki og hún skoraði 537 af 720 mögulegum (600 er lágmarks viðmið fyrir Evrópuleika og 620 fyrir Ólympíuleika og Vala er sífellt að nálgast það). Á næsta ári er bara fullorðins alvara. Fyrsta NUM sem Valgerður keppti á var 2021. En það mót var haldið sem fjarmót vegna kórónuveirufaraldursins. Þar var Valgerður í næst síðast sæti.

Valgerður byrjaði frekar seint að æfa íþróttina af einhverri alvöru, en hún er búin að leggja sig mikið fram við það á æfingum á síðustu tveim árum að bæta form og tækni sína í íþróttinni og fjárfesta í góðum búnaði, upp að því stigi að hún er að keppa í gull úrslitum allra Íslandsmóta fullorðinna í dag. Frá næst síðasta sæti í þriðja efsta sæti á einu ári, það þarf að æfa til að ná slíku.

Vala keppti einnig í liðakeppni á NUM í sameiginlegu liði Íslands, Færeyja og Noregs þar sem þau voru í 4 sæti í undankeppni mótins. Í 8 liða úrslitum mættu þau Finnlandi sem var í 5 sæti í undankeppni. Leikurinn var jafn en endaði með sigri Finnska liðsins 5-3 og Valgerður því í 5 sæti á liðakeppni á NUM til viðbótar við bronsið í einstaklingskeppni. Liðakeppni á NUM er óvenjuleg að því leitinu til að körlum og konum er blandað saman og undir ákveðnum kringumstæðum geta þjóðir sameinast í að skapa lið.

Til viðbótar við að vinna til verðlauna á NM U21 flokki er vert að geta að Valgerður var í 5. sæti í berboga flokki á EM U21 fyrr á árinu eftir tap gegn Breskri stelpu í 8 manna úrslitum og Valgerður var einnig í 9 sæti með Íslenska sveigboga kvenna landsliðinu á EM fullorðinna eftir tap gegn Moldóvu í 16 manna úrslitum EM. Á EM fullorðinna utandyra í Munchen í júní var Valgerður nálægt því að tryggja sér sæti á Evrópuleikana fyrir Ísland þar sem hún jafnaði leikinn sinn og þurfti að beita bráðabana til þess að ákvarða hvor keppandinn héldi áfram, en þar hafði andstæðingurinn betur að því sinni.

Valgerður er mjög efnilegur keppandi og frábær persóna sem er en að bæta sig og að gera það mjög hratt. Við munum vafalaust sjá og heyra mun meira um hana í framtíðinni. Sunnlendingar eru stoltir af sinni konu þar sem Valgerður kemur úr Árnessýslu þó að hún keppi með BF Boganum í Kópavogi.

Frétt af archery.is

Nýjar fréttir