0.6 C
Selfoss

Landeldi hf. hlýtur styrk til að efla hringrásarhagkerfið

Vinsælast

Þorvaldur Arnarsson, verkefnastjóri hjá Landeldi hf.
Þorvaldur Arnarsson, verkefnastjóri hjá Landeldi hf.

Á dögunum veitti Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið styrki sem ætlað er að styðja við verkefni sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Markmið styrkveitinganna er meðal annars að stuðla að aukinni endurvinnslu og annarri endurnýtingu úrgangs sem fellur til hér á landi, og eins að efla tækifæri til nýsköpunar og þróunar á búnaði sem dregur úr magni úrgangs.

Eitt þeirra fyrirtækja sem hlaut fullan styrk að þessu sinni var Landeldi hf., sem þessi dægrin stendur í stórræðum við byggingu laxeldisstöðvar sinnar vestan við Þorlákshöfn. Þar mun félagið ala 33.500 tonn af laxi á ári þegar fullri vinnslugetu er náð með fulleldi á landi frá hrognum til slátrunar. Landeldi var veittur styrkur til að hanna og þróa lausnir sem gera kleift að safna þeim úrgangi sem til fellur við framleiðsluna og nýta hann til framleiðslu landbúnaða áburðar.

„Við lítum á þessa styrkveitingu sem viðurkenningu á því að Landeldi er á réttri leið með sína nálgun að umhverfisvænni matvælaframleiðslu,“ segir Þorvaldur Arnarsson, verkefnastjóri hjá Landeldi hf. „Umhverfissjónarmið vega gríðarþungt í framtíðarsýn Landeldis og frá upphafi hefur það verið okkar staðfasta stefna að koma auga á þær leiðir sem okkur eru færar til að efla hringrásina innan bláa hagkerfisins. Við höfum leitað allra leiða til að besta allar framkvæmdir og alla ferla til að ná því sem næst jákvæðu kolefnisspori. Með því að endurnýta úrgang úr laxeldinu okkar með þessum hætti viljum við styðja við hringrásarhagkerfið, og ekki síður bændasamfélagið. Landbúnaðarsamfélagið hefur átt á brattan að sækja undanfarið og ekki sér fyrir endann á því enn, og það helgast ekki síst af himinháu verði áburðar sem bændur eru nauðbeygðir til að kaupa á hærra verði en sést hefur nokkru sinni áður. Við teljum okkur geta orðið að liði þarna með því að taka höndum saman við bændasamfélagið í nærbyggð til að framleiða innlendan gæðaáburð úr því sem hingað til hefur einfaldlega verið losað í sjó eða urðað.“

Aðspurður segir Þorvaldur ómetanlegt að njóta þess stuðnings nærsamfélagsins sem og hins opinbera sem Landeldi hefur fundið fyrir. „Það skiptir sköpum. Landeldi er hluti af Ölfus Cluster-verkefninu og hefur okkur verið tekið opnum örmum af samfélagi Ölfuss og notið þaðan fulls stuðnings við hverja beygju, og við leyfum okkur að trúa því að styrkveitingarnar staðfesti að hið opinbera vilji hjálpa okkur að gera sýn Landeldis um fullkomna hringrás næringarefna úr landeldi að veruleika. Eins og einn af þeim sérfræðingum sem að þessu verkefni koma orðaði það: Sea and land – hand in hand. Það er okkar framtíðarsýn,“ segir Þorvaldur Arnarsson, verkefnastjóri Landeldis hf.

Nýjar fréttir