Sumartónleikar í Skálholti standa yfir frá 1.-10. júlí. Sumartónleikarnir hafa verið starfandi frá árinu 1975 og hafa staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtskirkju á hverju sumri. Hátíðin er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu og einn stærsti menningarviðburður sem fram fer á Suðurlandi yfir sumartímann, ásamt því að vera elsta barokkhátíð á norðurlöndunum. Á hverju sumri sækja á þriðja þúsund manns Sumartónleikana.
Eitt helsta markmið Sumartónleika í Skálholti er að stuðla að nýsköpun íslenskrar tónlistar. Tónverkin sem frumflutt hafa verið á hátíðinni nálgast 200, og hafa flest helstu tónskáld Íslands komið þar við sögu. Margir af þekktustu tónlistarflytjendum þjóðarinnar hafa einnig komið að starfi Sumartónleikanna á starfsferli sínum, og fjölmargir virtir erlendir flytjendur hafa sótt Sumartónleika heim. Hátíðin hefur skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð langt út fyrir landsteinana, sérstaklega hvað varðar flutning á tónlist 17. og 18. aldar.
Meðal markmiða Sumartónleikanna er að vera vettvangur fyrir hljóðfæraleik á upprunaleg hljóðfæri og er Bachsveitin í Skálholti meðal hópa sem hafa skipað fastan sess í tónleikahaldi Sumartónleikanna.
Vettvangur fyrir unga fólkið
„Við reynum alltaf að bjóða upp á viðburði sem höfða til fjölskyldna og viljum hvetja ungt fólk áfram og gefa því pláss á þessum vettvangi. Við leggjum upp með að blanda saman tónlist fyrir alla en áhersla er lögð á Barrokk og nýja tónlist. “ Segir Ásbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti sem sinnir listrænni stjórn Sumartónleikanna ásamt Ragnheiði Erlu Björnsdóttur.
Framundan er mikil tónlistarveisla fyrir unga sem aldna og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
„Það myndast alltaf svo mikil stemning í kringum þessa hátíð, fólk kemur og gistir, æfir sig í kirkjunni og það er svo mikið líf í Skálholti á meðan á hátíðinni stendur. Vegna fjarlægðar frá borginni kemur mikið af fólkinu og dvelur á staðnum sem gefur Sumartónleikunum ákveðna sérstöðu miðað við aðrar hátíðir,“ segir Ásbjörg að lokum.
Hér á eftir er stiklað á stóru um dagskrá Sumartónleikanna en ítarlegri lýsingu á viðburðum má finna á vefslóðinni sumartonleikar.is.
30. júní kl. 20:00 verða 9 verk nemenda úr tónsmíðadeild LHÍ frumflutt á upphafstónleikum hátíðarinnar af Hönnu Dóru Sturludóttir, Bergþóru Lindu Ægisdóttur og Jóni Bjarnasyni.
1. júlí kl. 20:00 flytur norska tréblásturstríóið Taffelpikene nýja tónlist eftir eftirtektarverð norsk tónskáld.
2. júlí kl. 13:00 standa Taffelpikene og leikkonan Ingunn Lára Kristjánsdóttir fyrir upplifunarleikhúsi fyrir alla fjölskylduna.
Kl. 15:00 mun Sigurður Halldórsson leika tónverk frá síðari hluta 20. aldar á barokkselló.
3. júlí kl. 11:00 mun Sólrún Franzdóttir Wechner semballeikari spila til heiðurs Helgu Ingólfsdóttur sem hefði orðið áttræð á árinu. Helga var stofnandi Sumartónleika í Skálholti. Kl. 14:00 leika Sólrún, Anna Kaiser og Johannes Berger tónlist eftir tónskáldið Geminiani.
Kl. 16:00 mun Vinakvartettinn stíga á stokk og flytja íslensk samtímaverk í hlýjum samhljómi án hljóðfæraleiks.
6. júlí kl. 17:00 ætlar sviðslistahópurinn Trigger Warning bjóða upp á vinnustofuna BRUM þar sem fjölskyldum gefst kostur á að skapa tónlist innblásna af náttúrunni. Farið verður út í náttúruna á hljóðveiðar og til að afla efniviðar í hljóðfæri. Í lokin gera krakkarnir tilraunir til að leika á hljóðfærin eftir eigin tónsmíðum.
7. júlí kl. 20:00 flytur tónlistarhópurinn Umbra kirkjulega tónlist frá Íslandi, Skandinavíu og meginlandi Evrópu.
8. júlí kl. 20:00 munu stöllurnar úr Dúplum dúó leika brothætta, ljóðræna og hráa tónlist þar sem eingöngu verður notast við söng og víóluleik.
9.júlí kl. 14:00 flytja Amaconsort fáein útvalin verk úr fjölbreyttri tónlistarflóru Englendinga á sautjándu öld.
Kl. 15:15 mun Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari og tónskáld segja frá verkum sínum og kl. 16:00 munu Berglind og John McCowen meðal annars flytja verk af plötunni Ethereality sem hlaut íslensku tónlistarverðlaunin 2021 í flokki sígildrar og samtímatónlistar.
10. júlí kl 11:00 syngur söngkonan Hildigunnur Einarsdóttir í messu.
Kl. 15:15 segir Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson, staðartónskáld frá verki sínu Skálholtsmessu sem flutt verður á lokatónleikum hátíðarinnar, sjálfri Skálholtsmessunni kl. 16:00.