Sveitarfélagið Árborg í samstarfi við Heilsueflandi samfélag og Auðlindina ætlar að endurtaka leikinn sumarævintýri fjölskyldunnar frá því sumarið 2021 sem heppnaðist vel og var mjög vel sóttur. Um er að ræða útgáfu af ratleik þar sem gengið er á ákveðin stað og kvittað í gestabók sem um leið gefur möguleika á vinningum frá fyrirtækjum í heimabyggð.
Um er að ræða sex staði í sveitarfélaginu þar sem búið er að setja sérstaka póstkassa sem þarf að ganga að og merkja í gestabókina. Staðirnir eru við Grýlupottana, Hellisskóg, Hallskot og fuglafriðlandið, Ingólfsfjall, fjaran við Knarrarósvita og Silfurberg en nánari skýringar má finna inná heimasíðu Árborgar arborg.is
Markmið verkefnisins er að hvetja fjölskyldur til útivistar í fallegu náttúrunni okkar, kynnast nærumhverfi sínu betur, uppgötva staði sem Sveitarfélagið hefur upp á að bjóða, skapa samverutíma saman og eignast skemmtilegar minningar saman.
Verkefnið er sett upp af Díönu Gestsdóttur, lýðheilsu- og forvarnarfulltrúa hjá Sveitarfélaginu Árborg en hún sér um verkefni tengd heilsueflandi samfélagi fyrir alla aldurshópa í Sveitarfélaginu. Auðlindin sem er skapandi atvinnu- og virknilausn á vegum Sveitarfélagsins sá svo um að gera alla póstkassana fína og koma þeim fyrir á sínum stað.